Tuesday, March 31, 2009

The Aviator



Um helgina horfði ég í annað sinn á myndina The Aviator með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverki. Myndin sem er leikstýrt af Martin Scorsese kom út árið 2005 og hlaut hún þá 5 óskarsverðlaun.

The Aviator er í raun ævisaga Auðmannsinns og flugáhugamannsins Howard Hughes. Þegar Howard var ungur strákur átti hann sér stóra drauma eins og flestir litlir strákar. Hann ætlaði að gera flottustu bíómyndirnar, fljúga hraðskreiðustu flugvélunum og vera ríkastur í heimi. Ólíkt mörgum ungum drengjum með óraunhæfar væntingar þá tókst honum nánast að gera alla þessa hluti. Hughes erfði gríðarlega mikla peninga þegar foreldrar hans létust og í stað þess að nýta þá á skynsamlegan máta þá notaði hann þá bara í þá hluti sem honum þóttu skemmtilegir.

Myndin hefst við tökur á flugvélamynd Howards: Hell’s Angels. Við gerð hennar braut Howard allar fyrirfram skrifaðar reglur og var með 25 myndavélar á tökustað sem þótti fáránlegt á þessum tíma. Einnig eyddi hann gríðarlegum fjármunum í það að vera með stóran herflugvélaflota á leigu í einhver ár því að aðeins var hægt að taka upp í skýjuðu veðri (án skýjanna sást ekki hversu hratt flugvélarnar fóru). Á sama tíma og frumsýna átti myndina, sem þá var orðin dýrasta mynd sögunnar, komu kvikmyndir með hljóði til sögunnar. Howard kom því í veg fyrir frumsýninguna og réðist í það stórtæka verkefni að talsetja alla myndina sem kostaði gríðarlega peninga ofaná. Að byrja myndina á þessu sýnir vel hversu stórtækur Howard var og því tilvalið. Myndin stiklar svo á stóru í lífi Howards.

Þú þarft að vera fokking mikill spaði til að ferðast um á sjóflugvél

Ástríða hans í lífinu var flugið og því fjallar meginpartur myndarinnar um það. Hughes gerði marga merka hluti tengda því, sló meðal annars mörg flughraðamet og hannaði stærstu flugvél sem smíðuð hefur verið. Hún var hins vegar smíðuð úr timbri vegna stríðsaðstæðna og flaug aðeins einu sinni.
Howard var mjög sérstakur maður eins og oft vill vera með snillingana. Hann var haldinn hreinlætisáráttu sem ágerðist með aldrinum og varð hann að lokum hálfgeðveikur. Einnig hafði hann mikla fullkomnunaráráttu sem nýttist þó vel við hönnun flugvéla. Þrátt fyrir þetta var Howard mikið kvennagull og var á tímabili giftur kvikmyndastjörnunni Katharine Hephurn.

Aðalleikarinn Leonardo DiCaprio skilar solid frammistöðu í þessari mynd og persónulega finnst mér hann oftast standa sig vel í þeim myndum sem hann leikur í. Cate Blanchett leikur Katharine Hephurn í myndinni og hlaut hún óskarsverðlaunin fyrir leik í aukahlutverki fyrir frammistöðuna. Fleirri frægir leikarar prýða myndina og má þar nefna Kate Beckinsale sem leikur eina af kærustum Howards, John C. Reilly sem fer með hlutverk fjármálastjóra Howards sem fylgir honum í gegnum allt og Alec Baldwin sem leikur Juan Trippe, forstjóra Pan Am og aðal andstæðing Howards. Leikarahópurinn í myndinni er því gríðarlega vandlega valinn og skilar það sér einfaldlega í góðum leik. Því eins og málshátturinn segir: Ráddu góða leikara og fáðu góðan leik bara!

Howard Hughes og Katherine Hephurn á góðri stundu

Sagan gerist á tímum seinni heimsstyrjaldar og er stemmingin í takt við það. Ótrúlega vel tekst að skapa þessa stemmingu með góðum sviðsmyndum, raunverulegum búningum og öllu tilheyrandi. Alltaf gaman að komst inní slíka stemmingu að mínu mati og skemmir tónlistin eftir Howard Shore ekki fyrir því. Merkilegast finnst mér alltaf við svona myndir að sjá allan gamla búnaðinn og flugvélarnar sem virðast fljúga fullkomlega þrátt fyrir aldur. Aðrir tæknilegir hlutar eins og lýsing klipping og hljóð myndarinnar voru barasta góðir eins og við má búast af mynd af þessari stærðargráðu og tók ég sérstaklega eftir því að í nokkrum atriðum myndarinnar mátti sjá nokkuð spes litasamsetningu og lýsingu í takt við það sem skapaði skemmtilega stemmingu. Helsti galli myndarinnar fannst mér vera tölvuteiknuð atriði í miklu magni sem stundum voru ekki alveg nógu samfærandi. Það er samt kannski nokkuð hörð gagnrýni þar sem að ekki var hægt að endurbyggja stærstu flugvél sögunnar úr timbri og líklegast hefur allri bestu tækni verið beitt við vinnsluna.

Ég hef mjög gaman af myndinni The Aviator um Howard Hughes. Mér finnst ótrúlega gaman að fylgjast með þessum unga og efnilega uppfinningamanni sem fékk þetta stóra tækifæri í lífinu til að gera í rauninni hvað sem hann vildi, þótt áhugi minn á flugi og verkfræði spili kannski þar inn í. Helsti galli myndarinnar finnst mér vera lengd hennar en hún er 170 og langdregin á köflum. Allt í allt er þetta þó mjög skemmtileg mynd sem hvetur mann til að láta drauma sína rætast.

Langaði að láta þessa mynd fylgja en hér má sjá stærstu flugvél sem smíðuð hefur verið, Hercules Howards Hughes, henni var þó aðeins flogið einu sinni.