Thursday, November 27, 2008

High School Musical



Ég hef ákveðið að koma út úr skápnum. Ekki með óhefðbundna kynhneigð heldur með tryllta ástríðu mína á dans og söngvamyndum. Ekki dæma mig krakkar, þetta er bara eitthvað sem ég hef alltaf unnið. Kannski spilar stelpulegt uppeldi frá móður minni þar inn í en hana dreymdi alltaf um að eignast stelpu og gaf mér því dúkkur í staðinn fyrir Action Man og lét mig horfa á myndir eins og Sound of Music í stað Rambo seríunnara. Ég átti aldrei tölvuleiki sem barn heldur lék ég mér bara í Barbie.

Mamma að gefa mér jarðaber sem var ein af aðferðum hennar við að "stelpuvæða" mig, ég hef hins vegar verið klipptur út úr myndinni, ég sit hinum meginn við borðið

En nóg af því. Ég sem stór aðdáandi söngvamynda hoppaði hæð mína af gleði og tilhlökkun þegar ég sá myndina High School Musical 3 auglýsta í bíóhúsum um daginn. (Hoppaði kannski ekki alveg hæð mína en allavega svona hálfa og sagði þar að auki:”Tilhlökkin mín til þess að horfa á þessa söngvamynd er allrosasvakaleg”, það var sko ekkert minna en það). Það vakti þó undrun hjá mér að ég hafði aldrei heyrt um mynd eitt og tvö og ákvað ég því að skella mér út á videoleigu og leigja mér High School Musical, númer eitt. Ég sannfærði kærustuna um að þetta væri ðö sjitt og spólunni var skellt í tækið, eftir það var ekki við snúið. Við hrifumst með inn í heim drauma. Heim þar sem að fólk tjáir sig á þann hátt sem að mér er eðlislægastur (þ.e. sönginn) og beitir líkamanum sem verkfæri tjáningar í formi hugljúfra dansspora. Mér fannst eins og ég væri endurfæddur og ég man ég hugsaði: “Þarna á ég heima”.

"Þarna á ég heima"

Þar sem þetta er fyrsta myndin í þríleiknum þá hefst hún á svolítilli kynningu persóna. Aðalpersónurnar Troy Bolton og Gabriella Montez eru bæði stödd á skíðahóteli í Alaska á áramótunum. Troy er kynntur sem körfuboltastrákur en hún sem bókaormur. Í miðju áramótafjörinu er karíókígræjan tekin upp og fólk tekur lagið hægri vinstri. Þegar líða tekur á kvöldið eru þau, sem þekkjast ekkert, fengin til að singja saman. Þau bera sig bæði frekar illa en enda þó með því að singja. Öllum að óvörum þá hafa þau bæði englaraddir. Raddir sem fá mann til þess að hugsa, hugsa um alla þá ást sem umlykur mann mann í heiminum. Þau singja lag með texta sem er eitthvað á þessa leið: “ This is the beginning of something new” sem er auðvitað mjög táknrænn og á fullkomlega við þessa hugljúfu senu. Þau enda kvöldið svo á því að kyssast og kveðjast. Þegar Troy kemur aftur í skólann eftir jólafríið bíður hans óvænt ánægja. Gabriella er búin að skipta um skóla og er núna með honum í skóla. Þrátt fyrir miklar körfuboltaæfingar hans og pressu frá föður hans um að standa sig í því og námsæði hennar þá skrá þau sig í prufur fyrir söngleik skólans. Þar tekur við hörð barátta við “illa” parið í myndinni. Systkinin Sharpay Evans og Ryan Evans sem hafa farið með aðalhlutverk söngleiksins frá því að honum var komið á fótinn. Systkinin reyna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að Troy og Gabriella taki þátt í prufunum (enda eru þau miklu betri). En allt kemur fyrir ekki og myndin endar á yndisgengnu atriði þar sem Troy og Gabriella fara á kostum í áheyrnaprufum sem allur skólinn fylgist með. Allir er sannfærðir um yfirburði þeirra, meira að segja faðir Troys, körfuboltagúrúinn. Söguþráðurinn er s.s. mjög klassískur og sumir myndu jafnvel kalla hann klisjukenndan. En því er ég algjörlega ósammála. Það er nefnilega stór munur á klassík og klisju og að mínu mati klikkar þessi formúla bara aldrei og gæti ég horft á myndir byggðar upp á þennan hátt endalaust. Því er þetta algjör klassík.

Öllum að óvörum þá hafa þau bæði englaraddir

Aðalpersóna myndarinnar er Troy Bolton. En hann er leikinn af goðinu Zac Efron. Þessi 21 árs strákur hefur sungið og dansað sig inn í hug og hjörtu allra Bandaríkjamanna og er í þann veginn að gera innrás á Íslandsmarkað þar sem að ég er handviss um að hann mun eignast bunkana af aðdáendum á öllum aldri (ég er allavega búinn að skrá mig í 4 aðdáendaklúbba hans). En hæpið í kringum hann er heldur ekki af ástæðulausu. Þessi drengur hefur hæfileika, mikla hæfileika. Þegar ég heyrði rödd hans í fyrsta skipti trúði ég ekki mínum eigin eyrum. Það var sem engill hefði gripið um axlir mínar og fært mig á hvítt ský þar sem að hann syngi fyrir mig á þann allra fallegasta hátt sem hugsast getur. En hæfileikar hans einskorðast ekki bara við sönginn, þó að flestir yrðu nú sáttir við þá hæfileika. Nei, Zac kann sko að dansa eins og atvinnudansari, spila körfubolta eins og NBA-stjarna og þar að auki þá er hann einn fallegasti ungi drengur sem guð hefur skapað og tel ég það mikinn heiður að fá að lifa á hans tíma og líta hann augum. Zac Efron er því fullkominn í hlutverk Troy Bolton. Troy er stjarna í skólanum sínum. Hann er fyrirliði og liðsstjórnandi körfuboltaliðsins og enginn hefur tærnar þar sem hann hefur sporana (as. in sporar á kúrekastígvélum sem komu aftur úr stígvélunum(til að leggja áherslu á hversu miklu framar hann stendur en hinir)) á körfuboltavellinum. Af þessum sökum og vegna ótrúlegs kynþokka hans eru allar stelpur skólans ástfangnar af honum. Troy er s.s þessi íþróttatýpa. Hann veit þess vegna ekki alveg hvernig hann á að hegða sér þegar hann fer að finna fyrir miklum áhuga á söng. En hann kemur þó út úr skápnum með áhuga sinn og á endanum sættast vinir hans á það. Að mínu mati stendur Zac Efron því frábærlega í að túlka þetta kröfumikla hlutverk Troys Bolt og mun hann án efa verða fastur í þessu hlutverki allt líf og aldrei fá hlutverk í öðrum myndum. En það er algjörlega fórnarinnar virði, svo góðar eru þessar myndir.

Sjiiiiittt hvað hann er FALLEGUR

Hin aðalpersóna myndarinnar er Gabriella Montez, leikin af Vanessu Hudgens. Hún fellur auðvitað aðeins í skuggan af Zac Efron en samt sem áður þá er hún líka frábær. Gabriella var þekkt í gamla skólanum sínum sem feimna nördastelpan en ákveður að byrja nýtt líf þegar hún skiptir um skóla. Söng-Líf. Hinn fallegi persónuleiki hennar brýst út og hún fær að blómstra á sviðinu. Hún verður svo ástfangin af Troy og hann ástfanginn á móti, eitthvað sem allar stelpurnar í skólanum öfunda hana af. Vanessa túlka Gabriellu frábærlega. Hún nær algjörlega að sýna okkur persónuþróunina sem Gabriella tekur úr því að vera bara nördagellan og út í það að verða sætasta og hæfileikaríkasta stelpan í skólanum. Gabriella stendur sig því með eindæmumum yndislega.

Oh! Nördadúllustelpan þín:):)

Vert er að fjalla um andstæðinga Troy og Gabriellu, systkininin Sharpay Evans og Ryan Evans. Þau eru söngleikjafrík skólans og klæða sig æðislega. Sharpay stjórnar í þessu systkinasambandi og er hún í rauninni hálfgerð tík við alla. Hún er ofur stelpuleg og gengur nánast alltaf í bleiku og með hárið blásið. Ryan er svolítið eins og dýrið hennar Sharpay. Hún stjórnar honum fullkomlega og gerir hann allt fyrir hana. En Ryan hefur einnig brennandi áhuga á söng dans og er ótrúlega metró týpa. Í myndinni er hann alltaf með höfuðfat og eru þau miseggjandi. Má þar nefna græna alpahúfu og bleika glimmerderhúfu. Systkinin eru nauðsynlegur partur myndarinnar því þau mynda þann ríg og mótsöðu sem hún þarf. En þau tapa auðvitað í lokinn því þannig virkar þetta klassíska konsept.

Evans systkini í sveiflu, hún bleik, hann með hatt..

Myndin er söng og dansamynd og einkennist hún því af söngi og dansi. Þetta kemur frábærlega út og er öll hljóðvinnsla fullkomin. Dansarnir í myndinni eru líka frábærir og þar eru greinilega þaulvanir danshöfundar á ferð enda dansarnir í myndinni kenndir í öllum bestu dansskólum landssins nú þegar. Ekki vantar svo upp á hæfileika leikaranna til að framkvæma sönginn og dansinn. Það sem vakti hvað mesta kátínu hjá mér við áhorf á þessari mynd voru rosalegar þversagnir. Strákarnir í körfuboltaliðinu voru ekki á eitt sáttir við það að fyrirliðinn þeirra væri orðinn einhver söngvarapussi en á meðan þeir voru að messa yfir honum að hætta þessu þá voru þeir kannski dansandi í kringum hann og syngjandi boðskapinn. Þetta þótti mér æðislega mótsagnakennt og hló ég oft dátt.

Þessi mynd hefur allt. Frábæra persónusköpun, geggjaða leikara, gott handrit, frábæra eftirvinnslu og þann kost að þegar maður byrjar að horfa á hana þá veit maður fullkomlega hvað mun gerast og hvernig hún mun enda. En það eru einmitt myndirnar sem mér og fólki eins og mér (svona einfeldingum) líkar best við. Ég er annar maður eftir að hafa horft á þessa epík á sviði söngvamynda og iða í öllum líkamanum af tilhlökkin við að horfa á High School Musical 2 og 3. Ég vona að framleiðslu þessara mynda verði aldrei hætt og mín æðsta ósk er að Zac Efron muni vera að leika í Nursing Home Musical 4 þegar ég verð kominn á elliheimilið.

Enda þetta á myndbandi af lokaatriði myndarinnar. Þarna felldi ég tár.

American History X



Horfði á American History X í fyrsta sinn í kvöld, skandall það. En myndin kom út árið 1999 og var tilnefnd til óskarsverðlauna. Henni er leikstýrt af Tony Kaye en handritshöfundur er David McKenna.

Myndin gerist í nútímanum og segir frá Nýnasistum í Bandaríkjunum. Eftir að faðir bræðranna Derek og Danny Vinyard er drepinn af innflytjendum missir eldri bróðirinn, Derek, stjórn á lífi sínu. Hann stofnar samtök um að losa landið við þessa “plágu” innflytjenda sem hann og hreyfingin trúa að séu uppspretta alls ills innan Bandaríkjanna. Þeir brjótast inn í búðir sem innflytjendur reka og berjast um yfirráð svæða við blökkumenn. Harkan nær svo hámarki þegar að Derek kemur að þremur svergingjum fyrir utan húsið sitt um miðja nótt við að að stela bílnum sínum. Hann skýtur þá einn þeirra til bana en þann þriðja drepur hann á mun hrottalegri hátt. Hann dregur hann út á götu og skipar honum að setja tennurnar á gangstéttarkantinn. Síðan sparkar hann af öllu afli aftan á hnakkann á honum. Þetta atriði fannst mér ógeðslega ógeðslegt og er án efa eftirminnilegasta atriði myndarinnar í mínum huga. Eftir þessi morð er hann færður í fangelsi. Myndin segir svo frá því hvernig Derek, sem er klár strákur, áttar sig á því hvað hlutirnir sem hann trúði voru rangir og hvernig hann tekst á við lífið þegar honum er sleppt úr fangelsinu. En þá þarf hann meðal annars að sannfæra litla bróður sinn um að snúa baki við Nýnasistahreyfinguna.

Þetta atriði er vont

Myndin er þó ekki sögð í réttri tímaröð heldur er flakkað fram og aftur í tíma. Ysti tími myndarinnar er tíminn þegar Derek er kominn úr fangelsinu en þess á milli er farið aftur til tímans áður en hann fór inn og á meðan hann sat inni. Þetta er sýnt annað hvort í búningi hugsana Dereks eða sem samtöl á milli Dereks og Danny.

Aðalleikari myndarinnar er Edward Norton sem leikur eldri bróðurinn, Derek. Þegar litið er á útlit hans í öðrum myndum hans þá hefur hann nú kannski ekki þetta týbíska nýnasista útlit, frekar geðveiki glæpamaðurinn útlitið. En fyrir myndina hefur hann greinilega eytt miklum tíma í gimminu, enda helmassaður og þegar hann er búinn að krúnuraka sig, safna skeggi í þennan fína doughnut og tattooera hakakross á brjóstvöðvann þá passar hann fullkomlega inn í hlutverkið. En Derek er eins og fyrr sagði ungur maður sem missti glóruna við það að missa föður sinn. Þegar að hann fer í fangelsi fyrir gjörðir sínar áttar hann sig þó á því að ekki ert hægt að dæma fólk eftir litarhættinum einum og eignast hann besta vin í svörtum manni. Þegar honum er svo sleppt úr fangelsinu breytir hann lífi sínu algjörlega og fer að kenna litla bróður sínum, sem hefur tekið upp nasista siði hans, að allt það sé vitleysa. Edwart Norton er mjög samfærandi í myndinni eins og flestu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur að einu atriði undanskyldu. En það er atriðið þegar Danny bróðir hans, hefur verið drepinn og Derek grætur með lík hans í fanginu. Þar þótti mér grátur hans ekki mjög samfærandi. Til gamans má geta að ég las á spjallborði á imdb að Derek væri byggður á alvöru manneskju. Manni sem hefði farið í gegnum sömu hluti og héldi í dag árlega fyrirlestra í gamla skólanum sínum gegn fordómum.

Derek að störfum í fangelsinu, með svarta félaga sínum sem kom vitinu fyrir hann

Bróðir Dereks, Danny, er leikinn af Edward Furlong og fer hann vel með það hlutverk. Danny er yngri bróðir Dereks og lítur því mikið upp til hans. Eftir að Derek hefur stofnað Nasistasamtökin fer Danny að hugsa á sama hátt. Eftir að Derek kemur svo úr fangelsinu er Danny spenntur að fara að lemja útlendinga með honum en verður fyrir vonbrygðum þegar hann áttar sig á því að Derek hefur breyst. Hann sannfærist þó um hinn nýja lífstíl eftir ræðu frá bróður sínum. Myndin er byggð í gruninn í kringum líf Dannys sem er hörkunasisti og hvernig bróðir hans tekst á við það verkefni að forða honum frá svipuðum örlögum og sínum eigin.

Öll vinnsla myndarinnar er til fyrirmyndar enda um fyrsta klassa Hollywoodmynd að ræða. Einn skemmtilegur fítus við hana er að þegar farið er aftur í tímann til tímans áður en Derek fór í fangelsi er myndin svart-hvít, en annars er hún í lit. Þetta hjálpar manni bæði að aðgreina tímana en leggur aðallega áherslu á þau drungalegu atriði sem einkenna fyrra líf Dereks og veldur því að þau verða áhrifameiri.

Í heildina séð er myndin góð að mínu mati. Öll vinnsla er góð, leikarar og stjórnendur standa sig með miklum prýðum en það sem skiptir mestu máli að mínu mati er að sagan er áhugaverð og mjög áhrifamikil og það gerir þessa mynd að einni bestu mynd sem ég hef séð.

(500 Maggastig?)

Derek:"Svertingjar eru líka fólk sko"...

Thursday, November 20, 2008

Moonraker



Eftir að ég skellti mér á Quantum of Solace síðasta Laugardag ákvað ég í iðjuleysi mínu að horfa á eina gamla bond mynd. Myndin Moonraker varð fyrir valinu og skemmti ég mér stórvel yfir henni. Þó það hafi nú kannski ekki verið vegna mikilla gæða myndarinnar.

Myndin kom út árið 1979, henni er leikstýrt af Lewis Gilbert og leikur “Íslandsvinurinn” Roger Moore James Bond. Moore er að mínu mati einn af betri Bondum en hann er ótrúlega ólíkur Daniel Craig sem hefur farið með hlutverk hans í síðustu tveimur myndum. Moore er róleg týpa enda orðinn 52 ára þegar Moonraker kemur út. Hann er því ekki mikið hlaupandi á eftir gæjum heldur er hann meira í því að læðast aftur að þeim og taka kung-fu högg á þá. Sem er algjör andstæða við Daniel Craig sem gerir ekki annað en að hlaupa um og skjóta allt sem hreyfist. Ólíkar týpur en kemur bæði vel út.

Söguþráður myndarinnar er mega-súr-fáránlegur. Þegar verið er að flytja geimferju sem Nasa var að kaupa af milljónamæringnum Hugo Drax er geimferjunni á ótrúlegan hátt stolið. Bond fer að rannsaka málið og kemst að ýmsu misjöfnu um Drax. Hann kemst að því að Drax stal geimferjunni í rauninni sjálfur og hefur mikil áform á prjónunum. Drax stefnir að því að útrýma manneskjum á jörðinni en rækta í staðinn sinn eigin kynstofn í geimstöð úti í geymi. Þegar myndin er farinn að færast út í geim og maður er farinn að sjá í hvað stefnir þá fer maður að glotta að fáránleikanum, en ég skemmti mér þó bara vel yfir þessu enda tók ég þessu á léttu nótunum. Bond text þó í lokinn að koma í veg fyrir þessi illu áform Drax eins og við mátti búast. Myndin er s.s. ótrúlega klassísk Bondmynd.

Úti í geim var nauðsynlegt að klæðast gulum asnalegum göllum..

Þetta er án efa ein formúlukenndasta Bond mynd sem gerð hefur verið og mætti halda að stundum væri leikstjórinn í rauninni að gera grín að Bond-conceptinu. Þar má nefna atriði þar sem að Bond fer í gegnum hluti bondstúlkunnar (sem einnig er njósnari), finnur út að þeir eru allir vopn og kemur svo með one-linera um það. Eins og: Daily Diary, svo skítur hann pílu úr dagbókinni og segir: rather a Deadly Diary. Aðal andstæðingur Bonds er Drax en undir honum vinna auðvitað menn sem gera skítverkin. Þar á meðal er Jaws sem var karakter í mörgum myndanna. Jaws er risastór maður sem bítur fólk og kemur hann fram í öllum myndunum sem heilalaust og tilfinningalaust drápsvélmenni. Í Moonraker fáum við þó að sjá nýja hlið á honum. Eftir að hafa bitið vír sem heldur kláfi uppi í sundur og rústað nokkrum húsum sér Jaws draumastúlkuna. Það atriði er eitt það fáránlegasta sem ég hef séð. Harðasti maður í heimi sýnir allt í einu á sér nýja hlið og hugljúf tónlist er spiluð undir þegar hann verður ástfanginn við fyrstu sín, vægast sagt mjög áhugavert atriði. Annað sem skemmtilegt er að geta er að flestir vondu kalla myndarinnar eru af erlendu bergi brotnir. T.d. er aðallífvörður Drax lítill, brjálaður kínverji.


Jaws sáttur

Svo ef þú ert í Bondstuði og ert tilbúinn að fá one-linerana í stríðum straumi á móti þér þangað til þú færð mega-kjánahroll þá mæli ég hiklaust með Moonraker. Fólk verður samt að vera í nokkuð góðu stuði til þess að þola hana alveg í gegn ☺