Tuesday, September 30, 2008

The French Connection



Ætla að skrifa um myndina The French Connection sem kom út árið 1971 og hlaut þá 5 óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta mynd þess árs.

Myndin fjallar um rannsóknarlögreglumennina Jimmy Doyle sem leikinn er af Gene Hackman og Buddy Russo sem leikinn er af Roy Scheider. Þeir eru samstarfsmenn í löggunni og starfa í fíkniefnadeildinni.
Eitt kvöld þegar þeir hanga á aðal krimmabarnum í bænum taka þeir eftir óvenjulega mikilli uppivöðslusemi fransks manns sem þeir kannast þó ekki við. Þeir fara að rannsaka mannin nánar og komast að þvi að hann heitir Alain Charnier og er franskur innflytjandi. Yfirmenn lögreglunnar hafa ekki mikla trúa á því að eyða tíma í að eltast við þennan mann enda hefur hann hreina sakaskrá. Á endanum afhjúpa Doyle og Russo þó að Alain Charnier stendur í stóru heróínsmygli í samstarfi við Frakka.

Myndin fjallar svo um það hvernig löggurnar reyna að “busta” frakkana við smyglstörfin. Um miðja mynd hefst ótrúlegur eltingaleikur þar sem að Jimmy Doyle eltir einn frakkanna. Frakkinn hoppar inn í lest en Jimmy keyrir bíl. Þetta atriði tekur hátt í 10 mínútúr og var talið alveg ótrúlegt hérna um árið. Jimmy keyrir á móti umferð og á allt sem á vegi hans verður, með miklum tilþrifum.



Það sem stendur uppúr í myndinni er leikur Gene Hackmans sem lítur út eins og unglamb miðað við það sem við flest þekkjum af honum. Hann var þó 41 árs þegar hann lék í myndinni. Hackman leikur sjálfsöruggan og hrokafullan rannsóknarlögreglumann sem dettur í það á virkum dögum og reynir við allt sem hreyfist. En þegar hann kemst í verkefni sem hann hefur metnað fyrir og trú á setur hann allt í botn og sinnir starfi sínu sem löggi mjög vel. Einkennismerki hans er hattur sem hann gengur með hvert sem hann fer.

Aðalandstæðingur hans, frakkinn Alain Charnier er skemmtilega mikil Andstæða Jimmy Doyles (persónu Hackmans). Hann er virðulegur maður sem kemur vel fyrir og er temmilega jarðbundinn. En hann rekur lítinn veitingastað sem yfirbreiðustarfsemi yfir mikla glæpastarfsemi sína og í rauninni er hann einn stærsti heróíninnflytjandi Norður-Ameríku.

Frakkinn sem selur Charnier heróínið er einnig mjög skemmtileg týpa. Eldri maður sem greinilega býr yfir mikilli reynslu á sviði smigls og annarar ólöglegrar starfsemi. Eftirminnilegt atriði er þegar Jimmy Doyle er að elta hann og hann hefur greinlega áttað sig á því. Frakkinn fer inn á lestarstöð og inn í lest og Jimmy á eftir honum. En áður en lestin fer af stað hoppar frakkinn út og Jimmy á eftir honum. Hann endurtekur þetta nokkrum sinnum en á endanum tekur Jimmy ekki eftir því að hann hafi farið aftur inn í lestina og Frakkinn skilur hann því eftir brjálaðan á brautarpallinum og vinkar honum kaldhæðnislega.




Tónlistin og tæknibrellurnar í myndinni er það sem einna helst kemur upp um aldur hennar. Tónlistin er í skemmtilega gömlum stíl sem svipar nokkuð til hins fræga Jaws stefs og svo með nokkrum háum tónum inn á milli. En tæknibrellurnar einkennast af gerfilegu gerfiblóði og hálflúðalegum barsmíðum.

Sú staðreynd að myndin er byggð á sönnum atburðum gerir hana skemmtilegri að mínu mati og þá sérstaklega sú staðreynd að aðalkrimmi myndarinnar, Frakkinn sem flutti inn dópið, slapp af vetvangi og hefur aldrei fundist síðan.

Persónulega olli myndin mér þó nokkrum vonbrigðum. En ég hafði líka nokkrar væntingar þar sem hún var valin besta mynd ársins þetta árið. Mér fannst sagan ekki vera nógu heilsteipt til þess að halda manni á tánnum allan tímann og margir daufir kaflar koma inn á milli aksjón atriða. Ég tek það þó fram að ég horfði á myndina ótextaða og verður að segjast að Gene Hackman er ekkert að sækjast eftir skýrmælskuverðlaunum fyrir leik sinn í myndinni og gæti það hafa haft áhrif á skoðun mína á myndinni.

Megaslæmt..



Ég horfði á myndina Superbad um daginn. Ég sá hana þegar hún kom út og fannst hún fyndin. Nú gerðist það eiginlega óvart að ég horfði á hana, fjölskyldan var að horfa á hana og ég byrjaði og en gat svo ekki hætt.

Í grunninn er þetta alls ekki nýtt concept. Aðalpersónur myndarinnar eru menntaskólastrákar á sínu síðasta ári í menntaskóla. Strákar sem ekki tilheyra svala genginu í skólanum en reyna allt til þess að fá að ríða áður en þeir komast í Háskóla, því eins og þeir halda fram þá er nauðsynlegt að vera búinn að öðlast reynslu í rúmfræðunum áður en þú kemur í háskóla þar sem tekið verður á því.

Söguþráðurinn er ótrúlega brenglaður. Þetta hefst allt á því að aðalkarakterunum Seth, Evan og Fogell er boðið í party, eitthvað sem gerist alls ekki á hverjum degi. En þar sem Fogell hyggst fá sér fölsuð skylríki seinna um daginn þá tekur Seth að sér að redda áfengi fyrir allt partyið. Myndin fjallar svo á stórkostlegan hátt um alla þá fáránlegu hluti sem henta þá áður en þeir komast að lokum í partyið.

Seth í góðu djelli

Seth, Evan, og Fogell spila mjög jafnstór hlutverk í myndinni og því ekki hægt að kalla einhvern einn aðalpersónu en ég ætla þó að byrja á að fjalla um Seth sem leikinn er af Jonah Hill. Jonah er ungur leikari sem greinilega er á uppleið og hefur hann sést í misstórum hlutverkum í myndum eins og Click, Knocked up og Forgetting Sarah Marshall. Seth er sá heimski í þríeikinu, hann er sá eini sem ekki komst inn í Dartmouth og eyðir stórum hluta síns frítíma í að finna út hvaða klámsíðu hann ætlar að vera áskrifandi að næsta árið. Hann er einnig feiti gæjinn í hópnum og á því erfitt með að næla sér í stúlku en er þó með stærstu yfirlýsingarnar um þau efni.


Evan er án efa skynsami gæjinn í hópnum. Leikinn af góðvini mínum Michael Cera sem einnig lék í Juno eins og kemur fram í bloggi mínu um hana og Arrested Development. Skemmtilegt er að geta þess að karakterinn sem hann leikur hér er mjög líkur bæði karakternum hans í Juno og Arrested og mér finnst hann í rauninni alltaf vera að leika sama strákinn. Hann heldur Seth og Fogell niðri á jörðinni og er límið í þessum vinskap þeirra.


Meistari McLovin í trylltum dansi

Fogell er þriðji maðurinn í þríeykinu. Leikinn af Christopher Mintz-Plasse (haha fáránlegt nafn ☺) sem ég man ekki eftir að hafa séð í öðru kvikmyndaverkefni. Karakter Fogels er þessi vitlausi en samt klári gaur. Gaurinn sem er klár á bókina en ótrúlega mistækur á allt utan hennar og þar að auki Mega-Lúði. Sem dæmi um þetta þá má nefna að þegar hann ákveður að fá sér fölsuð skilríki þá velur hann sér ekki eitthvað eðlilegt nafn eins og John heldur nafnið McLovin og ekkert eftirnafn! Atriðið þegar hann sýnir vinum sínum nýju skilríkin sín, ótrúlega stoltur, er mjög eftirminnilegt og er þetta McLovin grín strax orðin alger klassík. Fogell er gæjinn sem tekst að klúðra öllu en er þó heppinn í myndinni.

Skemmtilegustu karakterar myndarinn eru þó lögregluþjónarnir Officer Slater-Bill Hader og Officer Michaels leiknir af Bill Haden og Seth Rogen. Leikurunum sem hafa leikið í knocked up, sarah marshall, Tropic Thunder, Pineapple Express og mörgum öðrum stærstu grínmyndum síðustu ára. Í Superbad leika þeir þetta löggupar sem er orðið frekar þreytt á vinnunni sinni. Þegar þeir rekast svo á Fogell í dulargervi McLovins að gera tilraun til að kaupa áfengi ákveða þeir að taka hann undir sinn verndarvæng. Saman gera þeir fáránlegustu hluti þar sem að þeir sýna enga ábyrgð á neinn hátt sem löggæslumenn. Ómissandi par sem þeir félagar leika á ógleymanlegan hátt.



Í mínum huga eru höfundar Superbad komnir í sérflokk í grínheimi dagsins í dag. Þeir hafa skrifað eða komið á annan hátt að öllum bestu grínmyndum síðustu ára og virðast ekkert ætla að hætta að dæla út efni. Að mínu mati er Superbad þó besta mynd þeirra síðustu árin. Því þó svo hún byggi á ótrúlega klassískri hugmynd þá er einhver auka neysti sem þeir ná að glæða myndinni sem gerir hana að frábærri grínmynd.

Wednesday, September 24, 2008

JUNO




Ég ætla að skrifa um myndina Juno sem var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta mynd. Ég sá myndina fyrst síðasta vor en ákvað að horfa á hana aftur. Í fyrra skiptið sem ég horfði á hana þótt mér hún skemmtileg en ég skemmti mér jafnvel betur núna. Ég horfði á hana einn og heyrði því örugglega allt sem að allir sögðu og það bætti myndina þónokkuð því mikið er um brandara í myndinni sem maður fattar eða heyrir ekki nema maður hlusti vel.

Myndin fjallar um hina 16 ára gömlu Juno MacGuff sem verður ólétt eftir að hafa sofið hjá í fyrsta sinn með besta vini sínum, Paulie Bleeker. Juno stendur því frami fyrir þeirri stóru ákvörðun um hvað skuli gera í þessu máli. Hún ákveður að eiga barnið og gefa það til ættleiðingar og finnur par sem virðist vera áhugasamt um ættleiðingu í smáauglýsingum dagblaðsins. Myndin fylgir meðgöngunni eftir og sýnir frá þeim vandamálum sem myndast við að tvinna líf 16 ára gamallrar stúlku og meðgöngu saman.


Aðalpersóna myndarinnar er Juno, leikin af Ellen Page. Hún er ótrúlega afslöppuð og áhyggjulaus 16 ára stelpa. Gengur í strákalegum fötum, reykir pípu (eða gengur allavega um með hana í munninum, kannski bara uppá lúkkið) og spilar á gítar í hljómsveit með besta vini sínum, Paulie. Þegar hún kemst að því að hún sé barnshafandi vakna þó upp hjá henni ýmsar áhyggjur eins og hvort hún eigi að fara í fóstureyðingu og hvernig hún eigi að segja pabba sínum og stjúpmömmu sinni frá þessu. Hún er mjög skemmtileg týpa og á mörg gullkorn í myndinni. Sem dæmi um þetta ávarpar hún alla sem Dude og er það einkar skemmtilegt þegar hún spjallar við bestu vinkonu sína sem er algjör gelgja. Juno tekst ótrúlega vel á við meðgönguna og er hæfilega afslöppuð með þetta allt saman.

Paulie Bleeker er pabbi barnsins og besti vinur Juno. Leikinn af Michael Cera sem að einhverjir þekkja úr þáttunum Arrested Development og myndinni Superbad. Michael leikur mjög svipaðan karakter í Juno og hann gerir í Arrested og Superbad, frekar feiminn og kláran strák. Svona semí nörda. Paulie er skotinn í Juno en hans grunnhyggnu móður líkar ekki vel við hana “She’s just different” eins og hún segir. Paulie er þó það sjálfstæður að hann lætur sér fátt um finnast um þetta þvaður í móður sinni.

Parið sem vill ætleiða barnið heita Vanessa (Jennifer Garner) og Mark (Jason Bateman) Bateman. Á yfirborðinu eru þau aðeins vel stætt ungt par sem býr í snyrtilegu bandarísku hverfi en eftir því sem á líður á myndina komumst við þó að því að þau eru ólík. Vanessa er algjör snyrtipinni sem þráir að verða móðir. Mark þráir aftur á móti ekki jafn mikið að eignast barn og er mun afslappaðri týpa. Spilaði á sínum yngri árum í hljómsveit og á sér enn þann draum að verða frægur tónlistarmaður.

Pabbi og stjúpmamma Juno heita Bren (Allison Janney) og Mac MacGuff (J.K. Simmons). Mac MacGuff er skemmtilega leikinn af Simmons sem miðaldra karl sem hefur algjörlega fundið sig við sölu á loftræstingarkerfum. Á skemmtilega línu í myndinni þegar Vanessa spyr: “Have you ever felt like you’re just borne to do something” og hann svarar mjög ákveðinn: “Yes, heating and air conditioning and”. Þrátt fyrir einfaldleika hans og sterk viðbrögð þegar Juno opinberar fyrir honum að hún sé ólétt þá tekur hann sig saman í andlitinu og styður ótrúlega vel við bakið á henni.

Það sem gerir myndina einkar skemmtilega eru ýmsar pælingar og línur sem aðalpersónan kemur með. Sem dæmi um pælingu má nefna það af hverju fullorðið fólk tali svona mikið um að vera “sexually active” og hvað það þýði eiginlega. En svo eru það litlu brandararnir sem maður verður að hlusta eftir eins og þegar Juno er að verja Paulie sinn Bleeker fyrir pabba sínum og stjúpmömmu sem telja hann vera frekar mikinn aumingja og segir: “He actually is really good in uumm Chair”. Því þau gerðu það í stól. Erfitt að útskýra en mjög fyndið við áhorf.



Tónlistin í myndinni er frábær og á ótrúlega vel við hana á allan hátt. Hún einkennist af hráum gítarslætti og söng og er aðallag myndarinnar ótrúlega gott dæmi um þetta.
(http://radioblogclub.com/open/114779/anyone_else_but_you/Moldy_Peaches_-_Anyone_Else_But_You) Einnig prýða myndina lög eins og Piazza, New York Catcher með Belle & Sebastian. Mæli eindregið með því að allir eignist diskinn með tónlist myndarinnar á einn eða annan hátt enda mikil feelgood tónlist eins og myndin.
(http://thepiratebay.org/torrent/4296996/Juno_Soundtrack_2008_DrApeXi)

Myndin fjallar á ótrúlega skemmtilegan hátt um það hvernig svo ung stelpa tekst á við svona stóran hlut sem að eiga barn er. Þetta er ein mesta feelgood mynd sem ég hef séð. Svo ef þú hefur ekki séð hana og langar í ótrúlega afslappað og hugljúft kvöld yfir mynd þá mæli ég eindregið með Juno. Þetta er pottþétt mynd sem ég mun horfa á í þriðja og fjórða sinn.


Sunday, September 21, 2008

Þrjár stuttmyndir

Föstudaginn fyrir frekar löngu heimsótti ég Shorts and docs kvikmyndahátíðina aftur. Þótt það sé mjög langt síðan þá ákvað ég nú samt að setja þetta blog inn. Á dagskrá voru 3 heimildamyndir. Sýning myndanna hófst hálftíma of seint svo að áður en myndirnar byrjuðu hafði ég hlaupið inn í salinn og haldið að ég væri of seinn. Ég skildi auðvitað ekki upp né niður í myndinni sem var til sýningar enda passaði hún engan veginn við lýsingarnar á þeim myndum sem ég hafði ætlað að sjá. Komst þó fljótlega að því að ég var að horfa á endinn á 2 tíma langri mynd og flýtti mér því út. Skemmtileg byrjun á kvöldi.

Fyrst á dagskrá var myndin Hið hreina sigrar allt eða Purity beats everything. Dönsk heimildamynd leikstýrð af Jon Ban Carlsen.
Myndin fjallaði um tvo Dani sem lifðu af útrýmingarbúðirnar í Auschwitz. Var myndin byggð upp sem nokkuð klassísk heimildarmynd með viðtölum við fólkið og þess á milli voru spiluð myndbrot frá útrýmingarbúðunum.
Myndin skilaði sínum tilgangi á ágætan hátt, sem var að sýna fólki stemminguna sem ríkti í búðunum, leifa fólki að kynnast eftirlifendum þessara hörmunga og sjá hversu mikið þessi lífsreynsla breytti lífi þeirra. Myndin hafði kannski önnur áhrif á mig en aðra því ég kom í Auschwitz í fyrra og hef því séð hlutina sem fólkið talaði um.
Í heild er myndin ágæt en óskiljanleg myndskot af þvottasnúru kvikmyndargerðarmannsins og af honum að drekka kaffið sitt inn á milli atriða þóttu mér nú frekar asnaleg og tilgangslaus.

















Næst á dagskrá var mynd um mann, mjög feitan mann. Hún bar þó nafnið Fuglarnir eru hljóðir í skóginum eða Die Vögelein schweigen im Walde eða The Birds Are Silent in the Forest.
Myndin byrjaði á skoti af manninum sofandi í rúmi sínu. Myndavélin fylgdi manninum svo fram úr rúminu og inn í eldhús þar sem að hann snæddi morgunmat með móður sinni. Hvorugt segir neitt og virðast þau bæði vera ískyggilega þunglind. Maðurinn fer svo til vinnu á lager þar sem að hann sér um næturvaktina, ekki til að ýta undir lífsgleði hans. Að lokum er hann sýndur við iðkun aðaláhugamáls síns, skotveiða. Hann gengur um skóginn með byssuna sína og skýtur dádýr.
Eftirminnilegasta atriði myndarinnar er að mínum mati þegar maðurinn skoðar myndaalbúm sem hann geymir í veiðikofanum. Myndaalbúmið er fullt af myndum af dauðum dádýrum og virðist þetta vera það eina sem gleður manninn í gegnum myndina. Ekki er um hefðbundna heimildamynd að ræða þar sem að enginn sögumaður segir söguna og engin viðtöl eru tekin. Þema myndarinnar var greinilega firring nútímamannsins enda um einstaklega firrtan einstakling að ræða og markmið kvikmyndagerðarmannsins að vekja nútímafólk upp frá værum blundi firringar…
En án gríns þá skil ég engan veginn hvað vakti fyrir belgíska leikstjóranum Tim De Keersmaecker með gerð myndarinnar enda er um ótrúlega óvenjulega og óáhugaverða mynd að ræða.




















Aðalpersónu myndarinnar svipaði mjög til þessa manns


Síðasta myndin fjallaði um heyrnarlaus börn og bar nafnið Þögn í háværum heimi eða Silence in a Noisy World. Áhorfandanum var sýnt inn í líf barna sem lifa og læra saman á heimili fyrir heyrnarlaus börn í Egyptalandi.
Kannski var það einungis vegna áhugaleysis míns en mér fannst myndin aldrei komast á neitt flug. Þetta voru aðeins random skot af börnunum á heimilinu við hinar ýmsu iðjur. Þau borðuðu matinn sinn, þau fóru í talkennslu, þau fóru að sofa. Myndin var þó hugljúf en einfaldlega of hæg og leiðinleg.

Í heildina séð var þessi sýning frekar óspennandi. Fyrsta myndin stóð þó upp úr sem skásta myndin og uppákoman í upphafi ferðarinnar þegar ég settist inn á vitlausa bíómynd ☺

Monday, September 1, 2008

Fjórar íslenskar stuttmyndir

Eftir fyrsta kvikmyndafræðitímann skelltum við okkur nokkrir strákar á fjórar íslenskar stuttmyndir. Þetta voru myndirnar: Magapína, Ketill, Heimildamynd um Svein Kristján Bjarnason eða Holger Cahill og Kjötborg. Myndirnar voru mjög ólíkar og höfðu ótrúlega mismikið skemmtanagildi.

Myndin magapína fjallaði um kúnna Bröndu sem hafði ánetjast plasti. Í lýsingunni í bæklingnum hafði skipuleggjendum hátíðarinnar tekist að gera myndina áhugaverða en annað kom þó á daginn. Hún byrjaði á því að rödd manns heyrðist tala í nokkurn tíma um mengun í heiminum og hvaða áhrif það hefði á hann. Síðan tók myndin sjálf við og verð ég að segja að hún olli mér miklu vonbrigðum. Myndin hefði í rauninni getað verið kennslumyndband í dýralækningum því að aðeins var sýnd léleg upptaka af því þegar dýralæknir skar gat í beljuna, tróð hendi sinni inn í hana og togaði út endalaust plastdrasl sem beljan hafði étið. Svo var saumað fyrir og ahh bú. Frekar aum mynd að mínu mati. Ekki mikið virtist vera lagt í neinn hluta hennar og söguþráður var enginn.

Næsta mynd á dagskrá var myndin Ketill. Myndin fjallaði um þennan áhugaverða mann Ketil sem er eins og hann orðaði það sjálfur “bara grallari úr Reykjavíkinni”. Fylgst var með honum við hinar ýmsu iðjur, s.s. að tala við fugla og að sýna krökkum misheppnuð töfrabrögð. Maðurinn er þó ótrúlega hlýr og góður í gegnum öll skringilegheitin. Myndina mætti flokka sem heimildamynd þar sem að skiptast á viðtöl við Ketil sjálfan og myndbrot af honum. Að mínu mati var myndin of löng og hélt mér ekki spenntum allan tímann en ef á heildina er litið er hún skemmtileg hugmynd sem ágætlega var unnið úr.

Þriðja myndin á dagskrá var heimildamynd um Svein Kristján Bjarnarson eða Holger Cahill, Vesturíslending sem fluttist til Ameríku aðeins tveggja ára gamall. Skiljanlega er ekki til myndefni í heila kvikmynd um Svein svo að myndin er byggð upp á þann hátt að sögumaður segir sögu hans, viðtölum við fjölskyldu hans og vini er skotið inn í og ljósmyndir látnar rúlla ásamt nokkrum kvikmyndabrotum. Þetta form getur hentað ágætlega í svona myndum og kom í raun ágætlega út. Myndin var þó að mínu mati allt of löng og lá við að ég sofnaði á köflum. En henni til varnar þá er myndin ennþá í vinnslu og vona ég að framleiðendurnir klippi hana allrækilega til áður en að þeir sýna hana á öðrum vettvangi.

Síðasta mynd kvöldsins bar nafnið Kjötborg eftir samnefndri verslun í Reykjavík. Myndin fjallar um daglegt líf í versluninni en Kjötborg er ein af fáum hverfisverslunum sem lifa enn þann dag í dag. Kjörorð verslunarinnar eru: “Kjötborg, hér fæst allt” og á það ágætlega við. Þarna fást ótrúlegustu hlutir en einnig eru kúnnarnir á alla vegu og fáum við að kynnast nokkrum þeirra betur. Sérstök stemming ríkir á svæðinu þar sem að persónuleg tengsl myndast á milli búðareigendanna og viðskiptavinanna. Myndinni tekst mjög vel að fanga þá stemmingu sem ríkir í kringum þessa litlu búð og er sérstaklega skemmtilegt að sjá frá sambandi verslunareigendanna við nokkra af fastakúnnum sínum sem þeir afhenda mat inn um gluggann og þekkja í raun ótrúlega vel.
Þetta er eina af þessum feelgoodmyndum og hún fékk mig, Garðbæinginn, til þess að hugsa hvort það væri nú ekki gott að búa í Reykjavíkinni. Finnst að kvikmyndagerðamennirnir (eða konurnar) eigi hrós skilið fyrir skemmtilega hugmynd sem þær framfylgdu vel og á skemmtilegan hátt.