Saturday, February 28, 2009

MILK



Á þessu óskarsverðlaunamyndaseasoni horfði ég auðvitað á allar þær myndir sem tilnefndar voru sem besta mynd ársins og þar á meðal var myndin MILK með Sean Penn í aðalhlutverki. En Sean Penn var einnig tilnefndur sem besti aðalleikari.

Ég vissi ekkert um hvað þessi mynd var áður en ég skellti henni tækið og þegar ég komst að því að hún var líf samkynhneigðs manns þá dró aðeins úr áhugamínum á henni (ekki að ég hafi neitt á móti samkynhneigðum en ég var bara að búast við mikilli vælukjóamynd og var ekki í stuði fyrir það). Ég gafst þó ekki upp heldur hélt ótrauður áfram og sá ekki eftir því.
Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um ævi Harvey Milk frá fertugsaldri og fram til dauðadags. Harvey sem er samkynhneigður ákveður að flytjast frá New York til San Francisco ásamt elskhuga sínum Scott Smith. Í baráttu sinni fyrir réttindum samkynhneigðra ákveður hann að hann geti haft meiri áhrif ef hann fer í pólitík, hvort sem hann sé kosinn eða ekki.

Harvey heldur ræðu á götum úti

Hann býður sig því fram og leggur áherslu á að fela alls ekki samkynhneigð sína. Þetta vekur mikið umtal í Bandaríkjunum og þótt að hann tapi sínu fyrsta framboði og líka því öðru þá heldur hann ótrauður áfram. Barátta hans er greinilega að hafa jákvæð áhrif á sjónarhorn almennings á samkynhneigða. Eftir margra ára baráttu og mörg töp þá vinnur hann loks sigur en þetta vekur auðvitað gríðarlega athygli. Í sömu kosningum kemst maður að nafni Dan White líka að í borgarráðinu sem verður hans aðalandstæðingur. Aðalmál Harveys í embætti verður svo að berjast gegn lögum sem eiga að banna samkynhneigðum að koma fram opinberlega með kynhneigð sína og banna þeim að starfa sem kennarar og í öðrum opinberum störfum. Með almennri vakningu á meðal almennings tekst Harvey að vinna ótrúlega sigra í sinni baráttu.

Myndin átti að mínu mati aldrei séns í að vera valin besta mynd ársins á óskarsverðlaununum, hún er einfaldlega of mikið öðruvísi og ekki þessi stórmyndabragur yfir henni. En ég var handviss um það allan tímann að Sean Penn myndi fá verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki, sem hann svo gerði. Penn túlkar Harvey Milk ótrúlega vel, hann er ekki að ýkja karakterinn of mikið en er samt hæfilega hommalegur í fasi og gerir þetta bara á ótrúlega skemmtilegan hátt. Mjög gaman að sjá hann í þessu hlutverki þar sem að maður hefur nú oftar séð hann sem seinhvern sjúklega harðan krimma að drepa fólk. Greinilega mjög fjölhæfur maður og vonandi fáum við að sjá hann í fjölhæfari hlutverkum í framtíðinni. En Sean Penn var ekki eini leikarinn í myndinni sem stóð sig vel. Emile Hirsch stendur sig vel í hlutverki eins helsta aðstoðarmanns Harveys og Josh Brolin fer vel með hlutverk andstæðings Harveys, Dan White.

Sean Penn í harla ólíku hlutverki í Mystic River, greinilega fjölhæfur leikari

Myndinni er leikstýrt Gus Van Sant sem sjálfur er hommi og hefur það væntanlega verið lykilatriði í því að skapa trúverðugleika leikaranna. Því fæstir þeirra eru samkynhneigðir svo ég viti til. Og það er auðvitað nauðsynlegt fyrir myndina.

Í heildina séð var myndin mjög upplýsandi og bara nokkuð skemmtileg. Saga Harvey Milk er mikil baráttusaga undirmálshópa og á við hvenær sem er og hvar sem er í heiminum. Leikur Sean Penn stendur uppúr og öll vinnsla er til fyrirmyndar. Mæli eindregið með þessari hjartnæmu og áhrifamiklu mynd!

Harvey Milk er án efa mikil baráttuhetja á meðal samkynhneigðra

The Curious Case of Benjamin Button



Eftir mikið umtal og 13 óskarsverðlaunatilnefningar þá gat ég auðvitað ekki beðið eftir því að þessi mynd kæmi í bíó. Ég niðurhalaði henni því og horfði barasta á hana í heimahúsi (Núna eru reyndar alveg nokkrar vikur síðan) . Ég vissi ekki mikið um myndina þegar ég byrjaði að horfa á hana fyrir utan þessa tvo punkta: Myndin hafði hlotið 13 óskarstilnefningar (fékk þó bara þrenn) og fjallaði um mann sem fæddist gamall og yngdist svo með árunum.

Í rauninni þá er þetta meginefni myndarinnar en inn í þetta fléttast mörg vandamál þess að yngjast með aldrinum í stað þess að eldast og þar að auki þessi venjulegu atburðir ævinnar. Að skapa sér starfsferil, verða ástfanginn og fjölga mannkyninu.

En myndin fjallar jú um Benjamin sem fæðist forljótur gamall karl. Móðir hans deyr við barnsburð og faðirinn ákveður að gefa barnið frá sér. Benjamin lendir á aldraðrahæli og elst þar upp hjá konu sem kemur honum í móðurstað. Spaugilegt er að sjá Benjamin á aldraðrahælinu þar sem að hann lítur út fyrir að vera eldri en flestir íbúarnir en er svo svo ótrúlega ungur í anda. Þegar hann er bara 8 ára sér hann ástina í lífi sínu í fyrsta sinn. Hún heitir Daisy og er á sama aldri og hann. Útlit hennar er auðvitð í samræmi við aldur hennar á meðan Benjamin lítur út eins og 150 ára hálfdauður kall. En á milli þeirra myndast einhver tenging sem varir alla ævi. Sambandið á milli þeirra dofnar þó aðeins á unglingsárunum en nýjar áskoranir taka við Benjamin. Hann er ný gengin uppúr hjólastólnum og ræður sig til starfa á dráttarbát. Skipstjórinn á bátnum er mikil fyllibytta og lenda þeir í miklum ævintýrum saman. Benjamin gleymdir þó aldrei Daisy og heimsækir hana oft, Daisy verður atvinnuballetdansari og mætir hann á sýningar. Það er þó ekki fyrr en þau eru bæði um 35 ára sem að þau byrja að mynda ástarsamband sín á milli. Á því tímabili eru þau jafn gömul útlitslega séð og gaman er að sjá hvernig þau mætast í miðjunni. Þau eignast barn saman en Benjamin ákveður eftir nokkurra ára samband að hann verði að yfirgefa Daisy. Því ekki getur hún alið upp tvö börn þegar hann byrar að yngjast.

Maður er ekki að hata þessa ást!

Söguþráðurinn í myndinni er í sjálfu sér ekki sá merkilegasti. Sagt er frá lífslhlaupi manns, sem þó lendir í mörgum áhugaverðum hlutum sem oft tengjast þessum sérkennilegu einkennum hans. En pælingin í myndinni er þó ótrúlega skemmtileg þótt að hún sé afar einföld.

Myndin var tilnefnd til 13 óskarsverðlauna en fékk þó bara 3. Þar á meðal fyrir besta make-up og bestu tæknibrellur enda var sá hluti myndarinnar hreynt út sagt ótrúlegur. Það var frábært að sjá Brad Pitt byrja sem 100 ára gamlan karl og enda síðan sem 18 ára strákling. Bæði var gamla manns gerfið nokkuð samfærandi en hinn ungi Pitt var bara alveg eins og hann var á sínum yngri árum. Ekkert smá sætur!

Gamli

Ungi

En Brad Pitt leikur jú í myndinni og hefur álit mitt á honum hækkað mikið undanfarið. Í myndinni Burn After Reading sýndi Pittarinn á sér algjörlega nýja hlið þar sem að hann lék algjöran lúða og gerði það á mjög skemmtilegan hátt. Í þessari mynd kom hann einnig skemmtilega á óvart. Aðrir leikarar í myndinni fóru einnig mjög vel með hlutverk sín og þar ber hæst að nefna Cate Blanchett sem fór með hlutverk Daisy í myndinni.

Það sem ég hef mest út á að setja varðandi myndina er að hún er kannski ögn langdregin. Hún er 166 mínútur og hefði auðveldlega verið hægt að stytta hana allavega um þessar 46 mínútur sem hún fer yfir tvo tímana. Annars er the Curious Case of Benjamin Button mjög skemmtileg mynd sem fær mann til að hugsa um lífið og hvað það er sem gefur því gildi.

Slumdog Millionaire


Var búinn að lofa bloggi um þessa og þar sem að hún hlaut 8 óskarsverðlaun og þar á meðal verðlaun sem besta mynd þá varð ég bara að skrifa færslu um hana.

Myndinni er leikstýrt af Danny Boyle með handleiðslu indverska leikstjórans Loveleen Tandan. En handritið er unnuð af Simon Beaufoy upp úr skáldsögu Vikas Swarups.

Ég las skálsöguna viltu vinna milljarð fyrir nokkrum árum síðan. Sagan segir frá indverskum dreng og öllum þeim fáránlegu atburðum sem hann lendir í á lífsleiðinni. Bókinni er skipt niður í marga kafla þar sem að hver kafli segir eina sögu. Þannig skiptist bókin í raun upp í margar smásögur en þær fjalla þó allar um líf sama mannsins. Mér fannst bókin algjörlega frábær og hélt hún mér við efnið allan tímann (Ein af fáum bókum sem hefur haldið mér svona vel að lestrinum). Ég varð því mjög spenntur þegar ég heyrði að það ætti að fara að gera kvikmynd eftir bókinni og það hefur væntanlegt haft áhrif á álit mitt á myndinni.

Myndin er jú unnin uppúr bókinni og fjallar um indverska strákinn Jamal. Ysta sagan er sú að Jamal er að taka þátt í spurningakeppninni viltu vinna Milljarð og í kringum hverja spurningu fléttast svo sagan um það af hverju hann veit svarið við henni. Þetta er auðvitað mjög sniðugt settup en beint upp úr bókinni svo ekki er hægt að hrósa kvikmyndagerðarmönnunum fyrir þetta. Jamal lenti í ótrúlegustu hremmingum í gegnum ævina. Móðir hans dó þegar hann var ungur, hann lenti í fóstri hjá manni sem lét börn vinna fyrir sig sem betlara og hann vann sem ólöglegur leiðsögumaður í Taj Mahal. Allt gerðist þetta þegar hann var aðeins ungur drengur. Einnig átti hann í ástarsambandi við gleðikonu í bókinni, en því var breytt í æskuvinkonu í myndinni. Ævi hans er því mjög átakanleg og hefur handritshöfundur og leikstjóri úr miklu að vinna.

Sagan er byggð í kringum leikinn Viltu vinna milljón

En einhvern veginn þá ná þeir ekki að fanga það sem bókin gaf manni. Auðvitað er úr miklu að vinna við gerð svona myndar og erfitt að velja hverju á að sleppa og hverju ekki. En mér fannst bara eins og allt of miklu væri sleppt. Kannski eru þetta óraunhæfar kröfur hjá mér en það verður bara að hafa það. Myndin var þó fínasta afþreying og skemmti ég mér yfir henni. Þetta er svolítil feelgood mynd og falleg mynd á allan hátt. Litagleðin er mikil í eru greinileg Bollywood áhrif þar á ferðinni. Einnig er tónlistin í myndinni oft á tíðum mjög skemmtileg enda fékk myndin óskarsverðlaun fyrir tónlistina í myndinni.

Leikararnir stóðu sig allir mjög vel þótt að enginn hafi verið neitt áberandi frábær, allir stóðu sig bara alveg eins og maður vildi. Þeir voru s.s. hvorki að skemma fyrir myndinni né að bæta neinu við hana.

En í heildina séð þá er myndin góð, ég fer ekkert af því. En að mínu mati þá hefði líka verið skandall að gera ekki góða mynd upp úr þessari frábæru bók. Myndin er s.s. góð en bókin er svo miklu miklu betri!

Lokaniðurstaða: Bók > Bíómynd

Coach Carter



Einhverra hluta æxlaðist föstudagskvöldið þannig að við strákarnir horfðum á myndina Coach Carter sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu.

Coach Carter er engin venjuleg mynd. Coach Carter er körfubolta-negra-typpamynd í hæsta gæðaflokki. Coach Carter er týbískasta körfubolta-negra-typpamynd sem ég hef séð og þá er mikið sagt (því ég hef sko séð þær margar).

Myndin fjallar um körfuboltalið Richmond menntaskólans en hann sækja íbúar fátækrahverfisins í kringum skólann. Nemendur Richmond eru því aðallega svartir, sem er lykilatriði í myndinni (eða ekki). Í upphafi myndarinnar fáum við að sjá leik hjá Richmond körfuboltaliðinu þar sem að þeir skíttapar. En Ken Carter er mættur að horfa á leikinn. Ken Carter er er gömul stjarna úr skólakörfuboltanum og verðandi þjálfari liðssins. Carter tekur við liðinu í molum. Hann byrjar þjálfarastarfið með mikilli hörku og lætur strákana hlaupa og hlaupa og gera óteljandi armbeyjur. En Carter leggur ekki bara áherslu á íþróttina heldur heimtar hann líka árangur á skólabekknum. Þetta fer fyrir brjóstið á stjörnuleikmönnunum og aðal töffarinn Timo Cruz ríkur út af fyrstu æfingunni. Í fyrsta leik kemur það hins vegar auðvitað í ljós að Carter hefur gert kraftaverk, “strákarnir okkar” hafa tekið hamskiptum og vinna þeir leikinn.

Carter að halda ræðu yfir strákunum sem mun breita lífi þeirra

Eftir þetta tekur við sigratímabil hjá liðinu. “strákarnir okkar” vinna hvern leik á fætur öðrum og kóróna runnið með að vinna jólamót á milli nokkurra liða. Þessi partur er alveg aðeins of kjánalegur, þeir hefðu nú allavega getað tapað einum leik, en ég meina. Eftir sigurðinn á jólamótinu þá bregðast “strákarnir okkar” trausti Carters algjörlega. Þeir FARA Í PARTY! En Carter kemst að þessu og mætir í partyið. Þar eru leikmennirnir sauðdrukknir og sendir hann þá strax heim og er ekki par sáttur. Eftir að heim er komið er annað ljón mætt á veg “strákanna okkar” til frægðar og frama. Carter fær upplýsingar um afleidda frammistöðu þeirra á skólabekknum. En slíkt líður Carter alls ekki. Carter tekur uppá því að læsa íþróttahúsinu með hengilás og keðju og loka fyrir allar æfingar þangað til að leikmennirnir taka sér tak í skólanum. Hann sendir strákana á bókasafnið og heldur epíska ræðu um gildi menntunar. Þessi aðgerð hans vekur upp ótrúlegar deilur innan skólans og þá meina ég ótrúlegar. Þetta vekur upp svo mikið öngþveiti að allir miðlar bæjarins eru mættir næsta dag til að taka viðtal við Carter (kannski svolítið ýkt viðbrögð, þar sem að nemendur skólans eru á aldrinum 14-17 ára). Þessum deilum líkur þannig að Carter er kosinn burt úr skólanum á þingi skólans. Þá hefði einhver haldið að Carter gæfist upp og sneri sér að ferli sínum sem country söngvari. En það er gerist svo sannarslega ekki. “Strákarnir okkar” standa með sínum manni og neita að spila leik án gamla góða þjálfa! Þegar Carter er svo mættur í skólann að taka saman föggur sínar þá sitja strákarnir í íþróttasalnum við lærdóm. Þá stendur töffarinn, Cruz, upp og flytur ótrúlegt baráttuljóð undir epískri dramatónlist!

Roossaleg ræða hjá Cruz

Eftir þetta tekur Carter við liðinu að nýju og strákarnir brillera auðvitað í skólanum. Nú er úrslitakeppnin í körfuboltanum frammundan. “Strákarnir okkar” sem nú hafa brillerað í skólanum hefja æfingar af fullu kappi aftur og metnaðurinn er í hámarki. En í fyrsta leik eru þeir dregnir á móti besta liði ríkisins, þeir sjá því að þetta verður ekki auðveld leið. Leikurinn er eins spennindi og þeir gerast. “Strákarnir okkar” lenda undir í fyrri hálfleik en í þeim seinni koma þeir blóðþyrstir til leiks og ná að jafna metin og komast 1 stigi yfir á lokasekúndunum. Maður býst auðvitað við því að okkar menn muni því vinna leikinn því þannig hefur formúla myndarinnar verið hingað til. En mótherjarnir eiga eina sókn eftir og skora úr henni. Draumur okkar allra er því hruninn. En eftir leikinn peppar Carter stemminguna upp í hópnum með enn annarri epískri stemmingarræðu. Strákarnir eru sáttir með sjálfa sig og fá klapp frá áhorfendum eftir leikinn. Þvílíkt öskubuskuævintýri.

Þvílíkt öskubuskuævintýri

Myndin er byggð á sönnum atburðum og í lok hennar fáum við að sjá örlög nokkurra leikmannanna. En 6 af þeim fengu háskólastyrk og útskrifuðust úr háskóla sem verður að teljast mikið því aðeins örfáir úr Richmond skólanum náðu því marki að fara í háskóla.

En ég á alveg eftir að tala um leikarana sem eru jú lykilatriði í þessu íþróttadrama. Því Coach Carter er leikinn af engum öðrum en ofurtöffaranum Samuel L. Jackson. Samuel hefur sýnt það síðustu árin að hann er enginn venjulegur leikari. Samuel er leikari sem tekur hvaða hlutverki sem er ef það er einhver peningur fyrir það að hafa. Sú staðreynd að hann hefur leikið í 123 myndum síðustu 38 ár sem gera 3.2 myndir á ári ætti að sýna okkur það. En í Coach Carter fær hann aldeilis að brillera, engir aðrið leikarar eru í myndinni (nema jú aðalleikarinn úr Step Up 2 og einhverjir sápuóperuleikarar) og fær hann því að njót sviðsljóssins vel og mikið. Mónólogarnir hans eru endalausir og ekki vantar uppá epískar ræður. Ooooog djöfull er hann harður. Með setningum eins og: “I’m not a teacher. I’m the new basketball coach!” og “You can do push ups or you can shut up!” (sagt með dýpri og karlmannlegri rödd en þið getið nokkurn tíman ímyndað ykkur) byggir hann upp þennan ótrúlega harða og svala karakter Carter þjálfa. Þessi one-linerar einkenna myndina mikið og ætla ég því að deila nokkrum fleiri með ykkur. Þegar Carter heldur ræðu yfir strákunums egir hann eitt sinn: “Everything I learned in basketball, I learned from women.” Og þegar Cruz mætir aftur á æfingu eftir að hafa gengið út og spyr: “What do I have to do to get to play?” Þá svarar Carter eeeiiitursvalur: “You do not wan’t to know the answer to that question!” Og besta lína myndarinnar kemur þegar ósáttir aðilar keyra framhjá heimili Carters og brjóta rúðu með þeim skilaboðum að hann eigi að opna íþróttahúsið og leifa strákunum að æfa. Carter stendur þá upp og öskrar: “You brake my window, I brake your Mama!” Epísk lína hjá epískum karakter!

Samuel fór með eftirmynnilegt hlutverk í Snakes on a Plane

Gatorade var augljóslega sponsor í myndinni því í öðruhvoru atriði sjást menn drekka Gatorade, Baða sig í Gatorade og bursta tennur með Gatorade. Einnig ganga karakterar oft í Gatorade fötum.

En myndin er ekki aðeins körfuboltadrama heldur nær handritshöfundur að flétta nánast allar tegundir af drama inn í söguþráðinn. Einn strákurinn í liðinu á kærustu sem er ólétt, í kringum myndast nokkur dúndurdramatísk atriði sem í raun skipta söguna eeengu máli. En ég meina, því meira drama því betri verður myndin.
En dramatískasta atriði myndarinnar er þegar að frændi stráks í liðinu er drepinn. Sá strákur var dópsali og fengum við aldrei að kynnast honum. Þegar hann er drepinn er hins vegar rosalega mikið mál gert úr því sem maður skilur ekki alveg. En ég meina, því meira drama því betri verður myndin.

Tónlistin er lykilþáttur í myndinni. Í annarri hverri senu er súperdramatískri tónlist skellt inn eða upppeppandi stemmaratónlist. Og þegar ég segi annarri hverri senu þá er ég ekkert að ýkja, verður alveg semí kjánalegt eftir nokkuð áhorf.

Myndin Coach Carter er í heildina séð ágætis afþreying. Ef þú ert í góðum hópi þá geturðu auðveldlega skemmt þér ágætlega yfir þessu. En myndin er alls ekki góð á neinn hátt fyrir utan skemmtanagildi Samuels L. Jacksons.



Ég vil þakka “strákunum” fyrir stuðning við gerð þessa blogs. Takk strákar!

Friday, February 27, 2009

Hôrudo appu daun


Horfðum á myndina Hold Up Down (Hôrudo appu daun) einhvern tímann um daginn.

Siggi Palli varaði okkur við því að fyrri hluti myndarinnar væri góður en sá seinni væri frekar slappur og það voru orð með sönnu.

Myndin byrjar á því að tveir ungir menn í jólasveinabúningum fremja mjög óskipulagt rán í banka. Allt fer í fokk þegar að bíllinn þeirra hverfur og við tekur ein tilviljanakenndasta og klikkaðast atburðarás sem ég hef séð í bíómynd. Ræningjarnir hitta hippa sem spilar á gítar fyrir peninga í metroinu og hann flækist inn í málið á hinn ótrúlegasta hátt. Síðan blandast fleirri og fleirri karakterar inn í myndina eftir því sem á líður. Spilltir lögregluþjónar sem elta þjófana, trúaður maður í sjálfsmorðshugleiðingum sem heldur að hippinn sé jesús og margir aðrir ótrúlegir karakterar.


Jesús að brillera

Myndin er unnin á ágætan hátt og hef ég ekkert út á að setja varðandi klippingu og framistöðu leikara. Allt var þetta bara í samræmi við væntingar en þó alls ekki í neinum háklassa.

Í seinni hluta mynarinnar þá dettur hún algjörlega í ruglið. Allir karaktearnir eru saman komnir í kirkjusöfnuði þar sem að hópur uppvakninga er á staðnum og allt fer í háaloft með “rosalegum” bardagasenum. Eitursúr endir á mynd sem byrjaði þó á mjög skemmtilegan hátt.

Saturday, February 21, 2009

Idi i smotri



Horfðum á Rússnesku myndina Come and see í síðasta kvikmyndafræðitíma.

Siggi lýsti myndinni sem einni bestu stríðsmynd sem hann hafði séð en það að myndin var 2 tímar og korter sem vakti óhug margra þreyttra Menntaskólanema.

Myndin segir frá seinni heimsstyrjöldinni frá sjónarhorni Rússa, nánar tiltekið rússneskra smáþorpa sem fengu mörg hver slæma útreið frá Nasistum.

Sagan er byggð í kringum ungan strák sem heitir Florya. Hann vill ólmur fá að berjast fyrir þorpið sitt en til þess þarf hann að eiga byssu. Hann útvegar sér byssu og heldur af stað með herliðinu sem í raun er bara samansafn kotbænda sem eru vopnaðir eldgömlum rifflum og öðrum úreltum vopnum. Það sýnir manni vel hversu litla von þeir áttu gegn Nasistum sem voru búnir allri nýjustu tækni.

Þegar herliðið ætlar hins vegar að leggja til atlögu þá er honum sagt að verða eftir. Hann er mjög óánægður með það en það kemur þó í ljós að herliðið óð út í opinn dauðann og því var þetta nokkuð lán fyrir hann.

Nasistarnir drepa nánast alla hermenn rússanna og byrja svo að sprengja upp þorpin. Florya sleppur við sprengingarnar en missir heyrnina vegna sprengja sem springa í kringum hann. Til þess að túlka þetta heyrnarleysi ákvað leikstjórinn að láta allt hljóðið vera frekar bjagað í um hálftíma af myndinni. Þetta er nú kannski ágætis pæling en fyrir mitt leiti þá fannst mér þetta ekki gefa myndinni neitt. Þvert á móti þá færði þetta mér aðeins sársauka og hélt ég fyrir eyrun í nokkrar mínútur þegar ískrið var sem mest.

Í fyrri hluta myndarinnar er Florya mikið að ráfa um sveitirnar í leit að einhverjum á lífi, því Nasistarnir hafa rústað svo mörgu þorpum. Sá hluti myndarinnar einkennist af lööngum senum þar sem að hann er kannski bara eitthvað ráfandi um skóglendið á ótrúlega dramatískan hátt. Ég veit ekki hvort að ég var bara í svona ótrúlega ódramatísku stuði eða hvað en ég var allavega ekki að fýla þetta. Fannst þetta bara vera langdregið og frekar súrt.

Eftir fyrri hlutann ákváðum við að taka hlé sem var ótrúlega sterkur leikur að mínu mati. Fólk gat þá farið gat þá skellt sér út og reykt frá sér allt vit og komið svo “ferskt” inn til baka.

Seinni hluti myndarinnar er nefnilega mun betri að mínu mati. Þá verðum við vitni að árásum Nasista á smáþorp þar sem þeir sýna enga miskunn gagnvart einum né neinum. Brenna börnin og nauðga konunum. Sá partur er ótrúlega átakanlegur og greip mig sem áhorfanda algjörlega með.

Nasistarnir söfnuðu börnunum saman í eitt hús og brenndu þau þar öll!

Lokaatriði myndarinnar var geggjað! Florya stendur einn í blautu mýrlendinu. Hann hefur misst alla fjölskyldu sína og vini og nú stendur hann yfir innrammaðri mynd af nasistaforingjanum Adolf Hitler. Hann tekur upp riffil sinn og í geðshræringu sinni byrjar hann að hleypa af skotum á myndina. Inn á milli þess eru sýndar svipmyndir af Adolf Hitler úr myndinni Triumph des Willens þar sem hann heldur ræður og hvetur unga Þjóðverja áfram. Klippt er á milli þess og Florya sem hefur hatursvip á andlitinu og hættir ekki að skjóta. Undir þessu atriði er spilaður hinn magnþrungni kafli Lacrimosa úr sálumessu Mozarts. Úr verður allsvakalegt og áhrifamikið atriði.

Helvítis Hitler

Eftir á að hyggja er ég nokkuð sáttur með þessa mynd, þótt hún hafi verið langdregin og óþægileg (hljóðhlutinn) á köflum þá sýndi hún á áhrifamikinn hátt gríðarlega grimmd þýsku herflokkanna sem fóru í gegnum Rússland, brenndu þar 625 þorp og drápu alla íbúana.