Á þessu óskarsverðlaunamyndaseasoni horfði ég auðvitað á allar þær myndir sem tilnefndar voru sem besta mynd ársins og þar á meðal var myndin MILK með Sean Penn í aðalhlutverki. En Sean Penn var einnig tilnefndur sem besti aðalleikari.
Ég vissi ekkert um hvað þessi mynd var áður en ég skellti henni tækið og þegar ég komst að því að hún var líf samkynhneigðs manns þá dró aðeins úr áhugamínum á henni (ekki að ég hafi neitt á móti samkynhneigðum en ég var bara að búast við mikilli vælukjóamynd og var ekki í stuði fyrir það). Ég gafst þó ekki upp heldur hélt ótrauður áfram og sá ekki eftir því.
Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um ævi Harvey Milk frá fertugsaldri og fram til dauðadags. Harvey sem er samkynhneigður ákveður að flytjast frá New York til San Francisco ásamt elskhuga sínum Scott Smith. Í baráttu sinni fyrir réttindum samkynhneigðra ákveður hann að hann geti haft meiri áhrif ef hann fer í pólitík, hvort sem hann sé kosinn eða ekki.
Harvey heldur ræðu á götum úti
Hann býður sig því fram og leggur áherslu á að fela alls ekki samkynhneigð sína. Þetta vekur mikið umtal í Bandaríkjunum og þótt að hann tapi sínu fyrsta framboði og líka því öðru þá heldur hann ótrauður áfram. Barátta hans er greinilega að hafa jákvæð áhrif á sjónarhorn almennings á samkynhneigða. Eftir margra ára baráttu og mörg töp þá vinnur hann loks sigur en þetta vekur auðvitað gríðarlega athygli. Í sömu kosningum kemst maður að nafni Dan White líka að í borgarráðinu sem verður hans aðalandstæðingur. Aðalmál Harveys í embætti verður svo að berjast gegn lögum sem eiga að banna samkynhneigðum að koma fram opinberlega með kynhneigð sína og banna þeim að starfa sem kennarar og í öðrum opinberum störfum. Með almennri vakningu á meðal almennings tekst Harvey að vinna ótrúlega sigra í sinni baráttu.
Myndin átti að mínu mati aldrei séns í að vera valin besta mynd ársins á óskarsverðlaununum, hún er einfaldlega of mikið öðruvísi og ekki þessi stórmyndabragur yfir henni. En ég var handviss um það allan tímann að Sean Penn myndi fá verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki, sem hann svo gerði. Penn túlkar Harvey Milk ótrúlega vel, hann er ekki að ýkja karakterinn of mikið en er samt hæfilega hommalegur í fasi og gerir þetta bara á ótrúlega skemmtilegan hátt. Mjög gaman að sjá hann í þessu hlutverki þar sem að maður hefur nú oftar séð hann sem seinhvern sjúklega harðan krimma að drepa fólk. Greinilega mjög fjölhæfur maður og vonandi fáum við að sjá hann í fjölhæfari hlutverkum í framtíðinni. En Sean Penn var ekki eini leikarinn í myndinni sem stóð sig vel. Emile Hirsch stendur sig vel í hlutverki eins helsta aðstoðarmanns Harveys og Josh Brolin fer vel með hlutverk andstæðings Harveys, Dan White.
Sean Penn í harla ólíku hlutverki í Mystic River, greinilega fjölhæfur leikari
Myndinni er leikstýrt Gus Van Sant sem sjálfur er hommi og hefur það væntanlega verið lykilatriði í því að skapa trúverðugleika leikaranna. Því fæstir þeirra eru samkynhneigðir svo ég viti til. Og það er auðvitað nauðsynlegt fyrir myndina.
Í heildina séð var myndin mjög upplýsandi og bara nokkuð skemmtileg. Saga Harvey Milk er mikil baráttusaga undirmálshópa og á við hvenær sem er og hvar sem er í heiminum. Leikur Sean Penn stendur uppúr og öll vinnsla er til fyrirmyndar. Mæli eindregið með þessari hjartnæmu og áhrifamiklu mynd!
Harvey Milk er án efa mikil baráttuhetja á meðal samkynhneigðra
1 comment:
Fín færsla. 6 stig.
Post a Comment