Er flytja skyldi fyrirlestur um John Carpenter þá var pæling að horfa á einhverja mynd sem að hann hafði leikstýrt. Eftir mikla umhugsun þá tók ég þá ákvörðun að horfa á The Thing (tekið skal fram að það var nú samt ekki eina Carpender myndin sem ég horfði á) og hefur sú ákvörðun bara skilað mér góðum hlutum í lífinu. Hún hjálpaði mér jafnt með fyrirlesturinn og þegar ég þurfti að berjast við stökkbreyttann hund í fyrradag (gamli fyndni) að því ónefndu að ég gat sleppt kvikmyndafræðitímanum þegar bekkurinn horfði á myndina. Hún hefur s.s. bara skilað mér góðum hlutum og ætti það jú að vera næg ástæða fyrir hvern mann til þess að útvega sér gripinn og skella henni í tækið eitt laugardagskvöld. Eða bara eitthvað annað kvöld, skiptir svosem ekki máli.
Myndin hefst á loftskoti af sleðahundi á hlaupum um snæviþaktar sléttur suðurskautslandsins (mjög flott sena). Á eftir hundinum flýgur þó þyrla með manni innanborðs sem reynir að skjóta hundinn hvað eftir annað. Á upphafsmínútum myndarinnar áttar áhorfandinn sig því á því að alls ekki er allt með feldu. Nema auðvitað þeir áhorfendur sem stunda hundaskotfimi (gamli fyndni). Hundurinn hleypur inn á bandarískt svæði þar sem að “okkar menn” búa. Þyrlumaðurinn sem er norskur tekur ekkert tillit til þess og hættir ekki að skjóta fyrr en “okkar menn” plaffa hann barasta í drasl í sjálfsvörn. “Okkar menn” skilja hvorki upp né niður í hlutunum, blóta Norðurlandabúum í sand og ösku og taka sæta sleðahundinn að sér. En þeir vita ekki hverju þeir eiga vona á. Í ljós kemur að hundurinn er í rauninni enginn venjulegur hundur og ekki einu sinni hundur heldur háþróuð geimvera sem tekur sér bólfestu í líkömum lífvera á jörðinni og DREPUR!!!
Hundurinn alveg við það að rifna í sundur
Senan þar sem að það kemur í ljós er allsvakaleg hvað brellur og blóð varðar. Hundslíkaminn rifnar á einhvern fáránlegan hátt í sundur og geimverufálmarar stingast út í staðinn með meðfylgjandi dágóðum skammti af blóði. Slíkar senur eru í rauninni einkennandi fyrir myndina því að í gegnum hana kemst geimveran inn í líkama margra manna og það endar alltaf á sama veginn. En myndin er talin vera brautryðjendaverk hvað brellur af þessu tagi varðar og er gaman að geta þess að Rob Bottin sem sá um þær var aðeins 22 ára gamall þegar hann hóf vinnu við myndina.
Þessi geimverufaraldur kemur s.s. öllu í uppnám í rannsóknarbúðum BNA á suðurskautslandinu og eftir að flestir eru dauðir annaðhvort af völdum verunnar eða af mannavöldum þá endar myndin þar sem að aðalkarakterinn MacReady og einhverjir nokkrir aðrir eru í algjörri óvissu um framhald sitt. Að mínu mati var sú pæling að skilja áhorfandann eftir með spurningu um framhaldið mjög töff.
Kurt Russel leikur aðalhlutverkið í myndinni, R.J. MacReady sem er aðal rannsóknarstofuspaðinn á Suðurpólnum. Fyrir vinnuna við fyrirlesturinn hafði ég nú varla myndað mér skoðun á þeim manni en núna er ég alveg á því að þessi maður sé heví nett svalur og orsakast það líklega af miklum áróðri frá Pétri Grétarssyni. En það verður bara að segjast eins og er að karakterarnir sem hann hefur leikið í gegnum tíðina eru oftast aðeins of miklir töffarar. Eiginlega á því stigi að þeir eru orðnir of töff og þar með komnir í hring og orðnir semí asnalegir, en samt töff. Hann dansar allavegana á línunni. Ég væri mjög mikið til í að hitta manninn til þess eins að átta mig á því hvort hann hefur alveg húmor fyrir hlutverkum sínum eða taki þessu 100% alvarlega. Russel leikur allavega alveg eins og við má búast í myndinni og gerir það bara nokkuð vel (þ.e. að leika eftir væntingum, ekki að leika).
Aðrir leikarar í myndinni blikna svo mikið í samanburði við Kurt Russel að ég nenni ekki einu sinni að nefna þá á nafni.
Kurt Russel hefur leikið í fjöldanum öllum af Carpenter myndum og er stórmyndin Escape from L.A. ein þeirra þar sem að hann sýnir afbraðgsleik
The Thing reið engum hesti þegar hún kom út enda var það á sama og stórmyndin E.T. kom út. Það þarf hins vegar ekki að þýða neitt. Í heildina séð er the Thing fínasta afþreying. Mikil spenna er byggð upp og hún inniheldur fjöldann allann af scary atriðum. Ég myndi hiklaust mæla með henni við alla nema litlu systur mína.
1 comment:
6 stig.
Post a Comment