Ég hef ákveðið að koma út úr skápnum. Ekki með óhefðbundna kynhneigð heldur með tryllta ástríðu mína á dans og söngvamyndum. Ekki dæma mig krakkar, þetta er bara eitthvað sem ég hef alltaf unnið. Kannski spilar stelpulegt uppeldi frá móður minni þar inn í en hana dreymdi alltaf um að eignast stelpu og gaf mér því dúkkur í staðinn fyrir Action Man og lét mig horfa á myndir eins og Sound of Music í stað Rambo seríunnara. Ég átti aldrei tölvuleiki sem barn heldur lék ég mér bara í Barbie.
Mamma að gefa mér jarðaber sem var ein af aðferðum hennar við að "stelpuvæða" mig, ég hef hins vegar verið klipptur út úr myndinni, ég sit hinum meginn við borðið
En nóg af því. Ég sem stór aðdáandi söngvamynda hoppaði hæð mína af gleði og tilhlökkun þegar ég sá myndina High School Musical 3 auglýsta í bíóhúsum um daginn. (Hoppaði kannski ekki alveg hæð mína en allavega svona hálfa og sagði þar að auki:”Tilhlökkin mín til þess að horfa á þessa söngvamynd er allrosasvakaleg”, það var sko ekkert minna en það). Það vakti þó undrun hjá mér að ég hafði aldrei heyrt um mynd eitt og tvö og ákvað ég því að skella mér út á videoleigu og leigja mér High School Musical, númer eitt. Ég sannfærði kærustuna um að þetta væri ðö sjitt og spólunni var skellt í tækið, eftir það var ekki við snúið. Við hrifumst með inn í heim drauma. Heim þar sem að fólk tjáir sig á þann hátt sem að mér er eðlislægastur (þ.e. sönginn) og beitir líkamanum sem verkfæri tjáningar í formi hugljúfra dansspora. Mér fannst eins og ég væri endurfæddur og ég man ég hugsaði: “Þarna á ég heima”.
"Þarna á ég heima"
Þar sem þetta er fyrsta myndin í þríleiknum þá hefst hún á svolítilli kynningu persóna. Aðalpersónurnar Troy Bolton og Gabriella Montez eru bæði stödd á skíðahóteli í Alaska á áramótunum. Troy er kynntur sem körfuboltastrákur en hún sem bókaormur. Í miðju áramótafjörinu er karíókígræjan tekin upp og fólk tekur lagið hægri vinstri. Þegar líða tekur á kvöldið eru þau, sem þekkjast ekkert, fengin til að singja saman. Þau bera sig bæði frekar illa en enda þó með því að singja. Öllum að óvörum þá hafa þau bæði englaraddir. Raddir sem fá mann til þess að hugsa, hugsa um alla þá ást sem umlykur mann mann í heiminum. Þau singja lag með texta sem er eitthvað á þessa leið: “ This is the beginning of something new” sem er auðvitað mjög táknrænn og á fullkomlega við þessa hugljúfu senu. Þau enda kvöldið svo á því að kyssast og kveðjast. Þegar Troy kemur aftur í skólann eftir jólafríið bíður hans óvænt ánægja. Gabriella er búin að skipta um skóla og er núna með honum í skóla. Þrátt fyrir miklar körfuboltaæfingar hans og pressu frá föður hans um að standa sig í því og námsæði hennar þá skrá þau sig í prufur fyrir söngleik skólans. Þar tekur við hörð barátta við “illa” parið í myndinni. Systkinin Sharpay Evans og Ryan Evans sem hafa farið með aðalhlutverk söngleiksins frá því að honum var komið á fótinn. Systkinin reyna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að Troy og Gabriella taki þátt í prufunum (enda eru þau miklu betri). En allt kemur fyrir ekki og myndin endar á yndisgengnu atriði þar sem Troy og Gabriella fara á kostum í áheyrnaprufum sem allur skólinn fylgist með. Allir er sannfærðir um yfirburði þeirra, meira að segja faðir Troys, körfuboltagúrúinn. Söguþráðurinn er s.s. mjög klassískur og sumir myndu jafnvel kalla hann klisjukenndan. En því er ég algjörlega ósammála. Það er nefnilega stór munur á klassík og klisju og að mínu mati klikkar þessi formúla bara aldrei og gæti ég horft á myndir byggðar upp á þennan hátt endalaust. Því er þetta algjör klassík.
Öllum að óvörum þá hafa þau bæði englaraddir
Aðalpersóna myndarinnar er Troy Bolton. En hann er leikinn af goðinu Zac Efron. Þessi 21 árs strákur hefur sungið og dansað sig inn í hug og hjörtu allra Bandaríkjamanna og er í þann veginn að gera innrás á Íslandsmarkað þar sem að ég er handviss um að hann mun eignast bunkana af aðdáendum á öllum aldri (ég er allavega búinn að skrá mig í 4 aðdáendaklúbba hans). En hæpið í kringum hann er heldur ekki af ástæðulausu. Þessi drengur hefur hæfileika, mikla hæfileika. Þegar ég heyrði rödd hans í fyrsta skipti trúði ég ekki mínum eigin eyrum. Það var sem engill hefði gripið um axlir mínar og fært mig á hvítt ský þar sem að hann syngi fyrir mig á þann allra fallegasta hátt sem hugsast getur. En hæfileikar hans einskorðast ekki bara við sönginn, þó að flestir yrðu nú sáttir við þá hæfileika. Nei, Zac kann sko að dansa eins og atvinnudansari, spila körfubolta eins og NBA-stjarna og þar að auki þá er hann einn fallegasti ungi drengur sem guð hefur skapað og tel ég það mikinn heiður að fá að lifa á hans tíma og líta hann augum. Zac Efron er því fullkominn í hlutverk Troy Bolton. Troy er stjarna í skólanum sínum. Hann er fyrirliði og liðsstjórnandi körfuboltaliðsins og enginn hefur tærnar þar sem hann hefur sporana (as. in sporar á kúrekastígvélum sem komu aftur úr stígvélunum(til að leggja áherslu á hversu miklu framar hann stendur en hinir)) á körfuboltavellinum. Af þessum sökum og vegna ótrúlegs kynþokka hans eru allar stelpur skólans ástfangnar af honum. Troy er s.s þessi íþróttatýpa. Hann veit þess vegna ekki alveg hvernig hann á að hegða sér þegar hann fer að finna fyrir miklum áhuga á söng. En hann kemur þó út úr skápnum með áhuga sinn og á endanum sættast vinir hans á það. Að mínu mati stendur Zac Efron því frábærlega í að túlka þetta kröfumikla hlutverk Troys Bolt og mun hann án efa verða fastur í þessu hlutverki allt líf og aldrei fá hlutverk í öðrum myndum. En það er algjörlega fórnarinnar virði, svo góðar eru þessar myndir.
Sjiiiiittt hvað hann er FALLEGUR
Hin aðalpersóna myndarinnar er Gabriella Montez, leikin af Vanessu Hudgens. Hún fellur auðvitað aðeins í skuggan af Zac Efron en samt sem áður þá er hún líka frábær. Gabriella var þekkt í gamla skólanum sínum sem feimna nördastelpan en ákveður að byrja nýtt líf þegar hún skiptir um skóla. Söng-Líf. Hinn fallegi persónuleiki hennar brýst út og hún fær að blómstra á sviðinu. Hún verður svo ástfangin af Troy og hann ástfanginn á móti, eitthvað sem allar stelpurnar í skólanum öfunda hana af. Vanessa túlka Gabriellu frábærlega. Hún nær algjörlega að sýna okkur persónuþróunina sem Gabriella tekur úr því að vera bara nördagellan og út í það að verða sætasta og hæfileikaríkasta stelpan í skólanum. Gabriella stendur sig því með eindæmumum yndislega.
Oh! Nördadúllustelpan þín:):)
Vert er að fjalla um andstæðinga Troy og Gabriellu, systkininin Sharpay Evans og Ryan Evans. Þau eru söngleikjafrík skólans og klæða sig æðislega. Sharpay stjórnar í þessu systkinasambandi og er hún í rauninni hálfgerð tík við alla. Hún er ofur stelpuleg og gengur nánast alltaf í bleiku og með hárið blásið. Ryan er svolítið eins og dýrið hennar Sharpay. Hún stjórnar honum fullkomlega og gerir hann allt fyrir hana. En Ryan hefur einnig brennandi áhuga á söng dans og er ótrúlega metró týpa. Í myndinni er hann alltaf með höfuðfat og eru þau miseggjandi. Má þar nefna græna alpahúfu og bleika glimmerderhúfu. Systkinin eru nauðsynlegur partur myndarinnar því þau mynda þann ríg og mótsöðu sem hún þarf. En þau tapa auðvitað í lokinn því þannig virkar þetta klassíska konsept.
Evans systkini í sveiflu, hún bleik, hann með hatt..
Myndin er söng og dansamynd og einkennist hún því af söngi og dansi. Þetta kemur frábærlega út og er öll hljóðvinnsla fullkomin. Dansarnir í myndinni eru líka frábærir og þar eru greinilega þaulvanir danshöfundar á ferð enda dansarnir í myndinni kenndir í öllum bestu dansskólum landssins nú þegar. Ekki vantar svo upp á hæfileika leikaranna til að framkvæma sönginn og dansinn. Það sem vakti hvað mesta kátínu hjá mér við áhorf á þessari mynd voru rosalegar þversagnir. Strákarnir í körfuboltaliðinu voru ekki á eitt sáttir við það að fyrirliðinn þeirra væri orðinn einhver söngvarapussi en á meðan þeir voru að messa yfir honum að hætta þessu þá voru þeir kannski dansandi í kringum hann og syngjandi boðskapinn. Þetta þótti mér æðislega mótsagnakennt og hló ég oft dátt.
Þessi mynd hefur allt. Frábæra persónusköpun, geggjaða leikara, gott handrit, frábæra eftirvinnslu og þann kost að þegar maður byrjar að horfa á hana þá veit maður fullkomlega hvað mun gerast og hvernig hún mun enda. En það eru einmitt myndirnar sem mér og fólki eins og mér (svona einfeldingum) líkar best við. Ég er annar maður eftir að hafa horft á þessa epík á sviði söngvamynda og iða í öllum líkamanum af tilhlökkin við að horfa á High School Musical 2 og 3. Ég vona að framleiðslu þessara mynda verði aldrei hætt og mín æðsta ósk er að Zac Efron muni vera að leika í Nursing Home Musical 4 þegar ég verð kominn á elliheimilið.
Enda þetta á myndbandi af lokaatriði myndarinnar. Þarna felldi ég tár.
2 comments:
Epísk færsla. Mér finnst ég greina ákveðna íroníu...
10 stig.
þetta er ein fyndin grein. Þú náðir alveg að fá mig til að lesa heila færslu um High School Musical, vel gert.
Post a Comment