Friday, October 31, 2008

Reykjavík – Rotterdam og Óskar Jónasson



Skellti mér á mynd vikunnar, Reykjavík-Rotterdam með Magga á sunnudaginn þar sem að við vorum helmingur mættra nemenda ásamt Sigga Palla.

Þessu bloggi byrjaði ég á um daginn en komst þó ekki lengra en þetta. Ég ætla því að taka upp þráðinn núna og fjalla um myndina og heimsókn leikstjórans í tíma til okkar. Myndinni er leikstýrt af Óskari Jónassyni sem hefur gert stórmyndir eins og Sódóma Reykjavík en einnig mikið af sjónvarpsþáttum á borð við Fóstbræður. Hann skrifaði handritið að myndinni í samstarfi við metsöluhöfundinn Arnald Indriðason sem hefur slegið í gegn með spennusögur sínar á Íslandi sem og erlendis. Samstarf þeirra lítur því ótrúlega vel út á blaði þegar gerð spennumyndar liggur fyrir. Ekki skemmir leikarahópurinn heldur fyrir en í myndinni fara Baltasar Kormákur og Ingvar E. Sigurðsson með aðalhlutverkin og Þröstur Leó, Ólafur Darri og Jörundur Ragnarsson með minni hlutverk ásamt fleirrum. Þarna er s.s. á ferðinni hópur sem kalla mætti landslið Íslenskra leikara dagsins í dag.

Myndin segir frá gamalreyndum íslenskum smyglara að nafni Kristófer sem er hættur allri glæpastarfsemi og reynir að vinna fyrir sér og fjölskkyldu sinni með ýmsum óspennandi vinnum. Honum býðst svo að taka að sér nýtt smyglverkefni og þar sem það gengur illa að láta enda ná saman þá ákveður hann að slá til. Vinur hans Steingrímur sem stóð í smyglinu með honum forðum leggur út fyrir góssinu og Kristófer ræður sig sem aðstoðamann á flutningaskipið Gullfoss. Þegar komið er um borða hittir hann svo gömlu félaga sína og segir þeim frá áformum sínum. Þeim líst ekki vel á málið en fallast þó á að hylma yfir með honum. Kristófer stefnir að því að smygla inn spýra og ætlar að kaupa hann í Rotterdam, þar hefur hann keypt lítinn flutningabíl til þess að geyma varninginn í. Þegar þeir koma til Rotterdam verða þeir að hafa hraðar hendur því skipstjórinn má ekki vita að Kristófer sé farinn frá borði. Myndin segir svo frá því hvernig smyglið fer fram með öllum eðlilegum vandræðum.

Sprengjuatriði í Rotterdam, greinilegt að ekkert var sparað hvað áhættuatrðin varðar

Kristófer er leikinn af Baltasar Kormáki og gerir það með stakri prýði. Karakterinn er fátækur fyrrverandi smyglari sem tók á sig alla sökina í stóru smyglmáli nokkrum árum áður og sat inni í nokkur ár.

Það mætti kannski segja að myndin væri óvenjuleg fyrir íslenska mynd að vera þar sem hér er um að ræða klassíska spennumynd. En ekki einhverja ótrúlega listræna mynd sem fjallar um drykkju og ömurleika lífsins í sveit á Íslandi. Handritið er mjög vel skrifað og heldur söguþráðurinn manni áhugasömum allan tímann. Ekki skemmir svo fyrir að hún endar á óvæntan og fyndinn hátt svo áhorfandinn gengur glottandi út úr bíósalnum.

Að öllum tæknilegum atriðum er vel staðið og kemur hljóð og mynd nánast alltaf vel út. Þó voru sum skot nokkuð skrítin og sem dæmi um það má nefna að krani er notaður við myndatöku í mjög ómerkilegu atriði þegar Kristófer er að keyra inn í innkeyrsluna heima hjá sér. En þar mætti nú bara gefa myndatökumönnum og leikstjóra stig fyrir mikinn metnað í myndatökunni. Eftirminnilegasta atriði myndarinnar er í mínum huga atriðið þegar Gullfoss er að koma til hafnar í Rotterdam og er það sérstaklega skemmtilegt eftir að hafa heyrt Óskar tala um það. Hann sagði okkur að þeir höfðu bara eina tilraun til þess að taka þetta atriði því ekki gátu þeir fengið skipið til að sigla oft til hafnar í Rotterdam. Í atriðinu hafa starfsmenn skipsins skemmt vélina á einhvern hátt til þess að kaupa tíma fyrir Kristófer að fara í land í Rotterdam og kaupa spírann. Skipið lætur því ekki undan stjórn og siglir á ofsahraða til hafnar. Er öll myndataka til fyrirmyndar þar og maður trúir því fullkomlega að þetta sé að gerast þó að Óskar hafi útskýrt að í raun hafi þeir bara hraðað upptökunni mikið til þess að láta þetta líta svona vel út.

Myndin segir á áhugaverðan hátt frá smyglstarfsemi Íslendinga. Öllu stressinu og veseninu sem því fylgir og hversu mikil áhrif það hefur á aðstandendur smyglaranna. Að mínu mati er myndin mjög vel heppnuð og besta íslenska spennumynd sem ég hef séð.

Frá heimsókn Óskars má segja að hann var ótrúlega afslappaður gæji. Sagði okkur frá gerð myndarinnar og var það mjög gaman að fá að sjá hlið leikstjórans á mynd sem maður hafði nýlega séð.

Óskar í stuði

1 comment: