Friday, October 31, 2008

REC



Pétur fór í NEXUS um daginn og sá mynd á einum rekkanum sem hét "REC". Pétur ákvað að taka hana upp þar sem gagnrýnendur voru búnir að lofsyngja hana dável á "coverinu". Orð eins og "The scariest movie you'll ever see" , "A short, terrifying ride" og "HOLY FUUUCKKK!!!!" voru látin fljúga. Aftan á myndinni var lýsing á trailer sem Pétur hafði séð í bíó einni viku áður. Trailer fyrir mynd sem heitir einmitt Quarantine. Pétur varð smá undrandi þar sem sú mynd er á leiðinni í bíó eftir nokkra daga. Pétur spurði einn Úber-1337 NEXUS-nölla hvort hann vissi eitthvað um þessa mynd. Hann sagðist ekki vita neitt nema að þessi mynd væri ársgömul og spænsk.

Einhvern veginn á þennan hátt hófst ævintýri mitt, Péturs og kvikmyndarinnar Rec. Pétur ákvað þó að fjárfesta í myndinni og við horfðum svo á hana í góðum hópi nokkrum dögum síðar. (Vinsamleg athugasemd: það er nauðsynlegt að horfa á þessa mynd í góðum hópi ef þú vilt ekki kúka í þig).

Þessi horfði á REC og kúkaði í sig

Rec er spænsk mynd sem kom út í fyrir sirka ári síðan. Einhverjir frumlegir menn í Bandaríkjunum hafa nú tekið upp á því að endurgera hana alveg eins nema með bandarískum leikurum. Töff þessir kanar, en það segir þó svolítið um gæði hugmyndarinnar á bak við myndina.

Myndin er öll tekin upp í sérstökum stíl. Myndavélin er þáttakandi í atburðarásinni á þann hátt að það er látið líta út fyrir það að að ein persóna myndarinnar taki allt upp. Fólk ætti að kannast við þetta úr The Blair Witch Project og myndinni Cloverfield sem kom nýlega út í Bandaríkjunum. Í þessu tilviki er þetta sett upp þannig að aðalpersóna myndarinnar er ung kona að nafni Ángela Vidal sem sér um þáttarstjórnun spænsks sjónvarpsþáttar. Hún fer að fylgjast með störfum slökkviliðsmanna og fylgir tökumaðurinn henni hvert fótmál. Myndin byrjar rólega þar sem að Ángela tekur viðtöl við nokkra slökkviliðsmenn á næturvakt þar sem þeir bíða eftir að verða kallaðir út. Spennan færist svo í leikinn þegar liðið er kallað út vegna óhljóða sem heyrst hafa frá íbúð í nágrenninu. Ángela og tökumaður hennar stökkva með slökkviliðsmönnunum upp í bílana og keyra af stað. Þegar á staðinn er komið ganga þau upp í íbúðina og þurfa að brjóta upp hurðina því enginn kemur til dyra. Þau ganga inn í myrkvaða íbúðina og mæta að lokum gamalli konu sem lítur mjög illa út. Hún gengur á móti þeim haltrandi en tekur svo kipp, hleypur að fremsta slökkviliðsmanninum og bítur hann í hálsinn. Hún sleppir ekki bitinu og tekur það nokkurn tíma að losa hana af honum. Nú sér fólkið að það er alls ekki allt með feldu í þessari íbúð. Þegar þau koma svo niður úr íbúðinni og ætla að flytja manninum út komast þau að því sér til skelfingar að það er búið að læsa öllum útgönguleiðum hússins og einangra það af lögreglunni. Þau fá engar skýringar og þurfa bara að hanga þarna inni. Brátt fara þó fleirri ógeðfeldir hlutir að gerast og þegar læknir er sendur inn til þeirra kemst fólkið að því að um er að ræða einhverja óþekkta veiru sem gerir það að verkum að fólkið hegðar sér líkt og það sé andsetið og ræðst á allt og alla.

Verið að hakka eina gamla tryllta tussu

Aðalleikkonan Manuela Velasco sem leikur Ángelu stendur sig vel. Karakterinn er ung sjónvarpsgerðarkona sem sér um einhvern ómerkilegan þátt í spænsku sjónvarpi. Hún hagar sér eins og hinn týpíski fjölmiðlamaður og gerir allt til að ná myndum af efninu. Það gerir hana óneitanlega frekar pirrandi karakter en án þess þá yrði myndin jú ekki söm því allt sem við sjáum er það sem myndatökumaðurinn hennar tekur upp.

Ángela ekki alveg að fýla stöðuna sem hún hefur komið sér í

Myndin er stutt eða aðeins um 80 mínútur en það er á engan hátt galli á henni heldur gerir það aðeins að verkum að spennan helst út allan tíman. Myndin er öll mjög dimm og drungaleg og nær tilgangi sínum ótrúlega vel á þann hátt. Ekki skemmir heldur myndatökustíllinn fyrir því hann lætur manni líða mun meira eins og maður sé þáttakandi í atburðarásinni heldur en ef hún væri tekin upp á hefbundinn hátt. Manni bregður ótrúlega oft og hryllir sig þeim mun oftar. Til gamans má geta að Arnór Einarsson neitaði að sitja einn í stól við áhorf hennar því hann var svo hræddur um að einhver myndi koma aftan að honum ☺

Myndin er í heildina algjör háklassa hrollvekju-splatter. Hún byrjar á dularfullan og hrollvekjandi hátt en í lokinn þá hafa karakterarnir misst alla siðferðiskennd og mann langar helst að stökkva sjálfur inn í myndina, taka upp vélsögina og byrja að hakka þetta ógeðslega lið. Þetta er toppmynd sem fær blóðið til þess að frjósa í æðum þínum….

1 comment:

Siggi Palli said...

Oh, nú langar mig enn meir að sjá hana. Ég vildi að ég hefði tíma akkúrat núna...

Sem sagt, góð og sannfærandi færsla. 9 stig.