Friday, October 31, 2008

Lars and the real girl



Ég horfði á myndina Lars and the real girl um daginn. Myndinni er leikstýrt af Craig Gillespie en skrifuð af Nancy Oliver en hvorugt þeirra hefur skrifað eða leikstýrt svo stórri mynd áður.

Myndin fjallar um umgan mann að nafni Lars sem býr í bílskúrnum hjá bróður sínum, Gus, og konunni hans í litlu þorpi í Bandaríkjunum þar sem að allir þekkja alla. Hann vinnur á ótrúlega óspennandi skrifstofuvinnustað við eitthvað sem aldrei kemur fram. Samstarfsfélagar hans eru allir megalúðar eins og hann sjálfur og vinna þeir mest lítið. Lars er almennt frekar ófélagslindur og hefur aldrei átt kærustu en einn daginn tilkynnir hann bróður sínum og konu hans að hann hafi kynnst stúlku. Hún sé Brasilískur trúboði og tali því ekki ensku. Einnig sé hún fötluð og geti því ekki gengið. Bróðir hans býður þeim í mat og hann þyggur boðið. En þegar Lars mætir með kynlífsdúkku sem hann nefnir Biöncu með sér í matarboðið og hegðar sér eins og hún sé manneskja þá er þeim öllum lokið. Þau ákveða að leita til heimilislæknisins Dagmar sem einnig er sálfræðingur. Hún greinir Biöncu með of lágan blóðþrýsting og biður Lars því að koma með hana í vikulegar rannsóknir. Í þessum rannsóknum spjallar hún svo við hann til þess að reyna að komast til botns í þessu furðulega máli. Dagmar segir Gus og konu hans Karin að það sé best að þau leiki með og meðhöndli Biöncu sem lifandi manneskju. Myndin fjallar svo á ótrúlega skemmtilegan hátt um hvernig samfélagið tekur þessu öllu. Það kemur þó á daginn að flestir taka þessu vel og í lokinn er Bianca orðin besta vinkona allra bæjarbúanna og farin að taka þátt í öllum þeim félagsstörfum sem eru í boði.

Margar senur á borð við þessa vekja upp mikla kátínu hjá áhorfandanum,

Lars er leikinn af “hjartaknúsaranum” Ryan Gosling sem fór meðal annars með hlutverk Noah Calhoun í ástartryllinum Notebook þar sem hann lék yfir sig ástfanginn mann. Hér leikur hann einnig ástfanginn mann, en þó á annan og undarlegri hátt. Lars er greinilega ekki eins og við flest heldur mikill einfari. Í upphafi myndarinnar vill hann helst vera einn í bílskúrnum sem hann býr í, í stað þess að vera inni í húsinu með bróður sínum Gus og konunni hans Karin. Það verða hins vegar miklar breytingar á líferni hans þegar hann kynnist ástinni, kynlífsdúkkunni Biöncu. Hann er stoltur af kvonfangi sínu og viðvera hennar hjálpar honum að opna sig fyrir öðrum og verða félagslegri. Hann á þó greinilega við einhverja geðveilu að stríða þar sem að það er ekki nú ekki alveg eðlilegt að eiga í ástarsambandi við kynlífsdúkku. Gosling fer mjög vel með þetta hlutverk. Það að leika geðveikan mann vel er erfitt verk en honum tekst svo sannarlega að sannfæra áhorfandann. Einnig langar mig að henda því hér inn að ég var ótrúlega hrifinn að klæðnaði Lars. Hann er alltaf í nýrri prjónapeysu með mögnuðum munstrum á eða einhverjum öðrum megaRetro fötum sem mig langaði að eiga allt!




Gus og Karin eru leikin af Paul Schneider og Emily Mortimer. Þau eru ótrúlega týpískt ungt, amerískt par. Hún er ófríst og snýst líf þeirra því mikið um ófrískuna. En henni þykir sérstaklega vænt um Lars og reynir hvað sem hún getur til þess að fá hann til að spjalla og koma í mat til þeirra í stað þess að hanga einn úti í bílskúr. Þau eru auðvitað sjokkeruð þegar Lars kynnir þeim fyrir Biöncu en vinna vel úr vandanum. Leikararnir standa sig bara nokkuð vel þótt að þetta sé ekki frammistaða sem maður myndi segja “Dúndurtúttur!” við.

Hugmyndin á bakvið myndin er að mínu mati algjör snilld. Þetta er einföld hugmynd en alveg ótrúlega fyndin. Hugmynd sem að öllum hefði getað dottið í hug og filmað því að framleiðsla myndarinnar hefur ekki verið dýr. Myndin er mest megnis tekin upp á heimili Lars og á hinum ýmsu stöðum í bænum og engin áhættu- eða stór atriði eru í henni. Þetta er því allt í senn einföld, sniðug og ódýr hugmynd.

Myndin er fyndin en einnig er hún dramatísk. Handritið er skrifað af kostgæfni og í heildina séð er þetta mjög skondin og hugljúf mynd sem ég mæli með að allir sjái.

2 comments:

birta said...

híhí "ófrískuna"

Siggi Palli said...

Sammála, þetta er fín mynd. Hvorki meira né minna en maður væntir, bara fín lítil mynd. Og ágætasta færsla. 7 stig.