Friday, October 31, 2008

Triumph des Willens



Horfðum á heimildamyndina Triumph des Willens í tíma í dag. Þetta er mynd frá 1935 sem var gefin út í Þýskalandi í þeim tilgangi að auglýsa Hitler og stefnu þýska þjóðernisflokksins. Í rauninni e.k. áróðursmynd. Hún er byggð upp á þann hátt að sýnd eru raunveruleg myndbrot af æðstu stjórnendum stjórnmálahreyfingarinnar. Myndir frá fundum þar sem Hitler, Goebbels og fleiri spaðar halda þrumandi ræður yfir ungmennum landsins og hvetja alla til samstöðu og baráttu þjóðarinnar til mikilla afreka. Ekkert er talað inn á myndina heldur er eina talið í henni ræður mannanna. Þó kemur alltaf texti inn á myndina sem segir áhorfandanum hverjir séu á mynd og hvar þeir séu.



Mjög er áhugavert að sjá þessa mynd á okkar tímum þegar við vitum hvernig þetta allt fór og sérstaklega er gaman að sjá hversu mikið Hitler var hylltur af almenningi hvar sem hann fór.

Annars er myndin engin skemmtimynd. Hún er 110 mínútur sem er að mínu mati allt, allt of langt en kannski var það bara gert til þess að þjappa þessu meira inn í hausinn á fólki. Enda var hálfur bekkurinn farinn að hylla Hitler í lok myndarinnar með viðeigandi handahreyfingum.

Tónlistin í myndinni er rosaleg. Á agalega slæman hátt. Alla myndina er spiluð undir einhvers konar þýsk tónlist sem einkennist af lúðraleik og trommuslætti. Eftir myndina finnst manni maður hafa hlustað á sama lagið allan tímann og langar ekki neitt að hlusta á það aftur. En kannski hefur það verið enn ein heilaþvottaraðferðin enda segja sumir að ef eitthvað er spilað aftur og aftur þá festist það í hugum fólks. Einhvern veginn hefur tónlistin þá átt að hjálpa við að troða boðskapnum inn í hausa fólksins.

Eins og ég segi þá skemmti ég mér ekki við áhorf myndarinnar en þó er ég ánægður að hafa séð hana. Senur þar sem Hitler þrumaði yfir herliðum sínum sitja eftir í huga mínum, enda Hitler enginn vitleysingur þegar áróðurs og ræðulistin á í hlut. Einnig sitja eftir í hug mínum myndir af ótrúlegum fjölda fólks sem hillir þessa menn. Menn sem í dag er litið á sem mestu óþokka nútímasögunnar.

Lars and the real girl



Ég horfði á myndina Lars and the real girl um daginn. Myndinni er leikstýrt af Craig Gillespie en skrifuð af Nancy Oliver en hvorugt þeirra hefur skrifað eða leikstýrt svo stórri mynd áður.

Myndin fjallar um umgan mann að nafni Lars sem býr í bílskúrnum hjá bróður sínum, Gus, og konunni hans í litlu þorpi í Bandaríkjunum þar sem að allir þekkja alla. Hann vinnur á ótrúlega óspennandi skrifstofuvinnustað við eitthvað sem aldrei kemur fram. Samstarfsfélagar hans eru allir megalúðar eins og hann sjálfur og vinna þeir mest lítið. Lars er almennt frekar ófélagslindur og hefur aldrei átt kærustu en einn daginn tilkynnir hann bróður sínum og konu hans að hann hafi kynnst stúlku. Hún sé Brasilískur trúboði og tali því ekki ensku. Einnig sé hún fötluð og geti því ekki gengið. Bróðir hans býður þeim í mat og hann þyggur boðið. En þegar Lars mætir með kynlífsdúkku sem hann nefnir Biöncu með sér í matarboðið og hegðar sér eins og hún sé manneskja þá er þeim öllum lokið. Þau ákveða að leita til heimilislæknisins Dagmar sem einnig er sálfræðingur. Hún greinir Biöncu með of lágan blóðþrýsting og biður Lars því að koma með hana í vikulegar rannsóknir. Í þessum rannsóknum spjallar hún svo við hann til þess að reyna að komast til botns í þessu furðulega máli. Dagmar segir Gus og konu hans Karin að það sé best að þau leiki með og meðhöndli Biöncu sem lifandi manneskju. Myndin fjallar svo á ótrúlega skemmtilegan hátt um hvernig samfélagið tekur þessu öllu. Það kemur þó á daginn að flestir taka þessu vel og í lokinn er Bianca orðin besta vinkona allra bæjarbúanna og farin að taka þátt í öllum þeim félagsstörfum sem eru í boði.

Margar senur á borð við þessa vekja upp mikla kátínu hjá áhorfandanum,

Lars er leikinn af “hjartaknúsaranum” Ryan Gosling sem fór meðal annars með hlutverk Noah Calhoun í ástartryllinum Notebook þar sem hann lék yfir sig ástfanginn mann. Hér leikur hann einnig ástfanginn mann, en þó á annan og undarlegri hátt. Lars er greinilega ekki eins og við flest heldur mikill einfari. Í upphafi myndarinnar vill hann helst vera einn í bílskúrnum sem hann býr í, í stað þess að vera inni í húsinu með bróður sínum Gus og konunni hans Karin. Það verða hins vegar miklar breytingar á líferni hans þegar hann kynnist ástinni, kynlífsdúkkunni Biöncu. Hann er stoltur af kvonfangi sínu og viðvera hennar hjálpar honum að opna sig fyrir öðrum og verða félagslegri. Hann á þó greinilega við einhverja geðveilu að stríða þar sem að það er ekki nú ekki alveg eðlilegt að eiga í ástarsambandi við kynlífsdúkku. Gosling fer mjög vel með þetta hlutverk. Það að leika geðveikan mann vel er erfitt verk en honum tekst svo sannarlega að sannfæra áhorfandann. Einnig langar mig að henda því hér inn að ég var ótrúlega hrifinn að klæðnaði Lars. Hann er alltaf í nýrri prjónapeysu með mögnuðum munstrum á eða einhverjum öðrum megaRetro fötum sem mig langaði að eiga allt!




Gus og Karin eru leikin af Paul Schneider og Emily Mortimer. Þau eru ótrúlega týpískt ungt, amerískt par. Hún er ófríst og snýst líf þeirra því mikið um ófrískuna. En henni þykir sérstaklega vænt um Lars og reynir hvað sem hún getur til þess að fá hann til að spjalla og koma í mat til þeirra í stað þess að hanga einn úti í bílskúr. Þau eru auðvitað sjokkeruð þegar Lars kynnir þeim fyrir Biöncu en vinna vel úr vandanum. Leikararnir standa sig bara nokkuð vel þótt að þetta sé ekki frammistaða sem maður myndi segja “Dúndurtúttur!” við.

Hugmyndin á bakvið myndin er að mínu mati algjör snilld. Þetta er einföld hugmynd en alveg ótrúlega fyndin. Hugmynd sem að öllum hefði getað dottið í hug og filmað því að framleiðsla myndarinnar hefur ekki verið dýr. Myndin er mest megnis tekin upp á heimili Lars og á hinum ýmsu stöðum í bænum og engin áhættu- eða stór atriði eru í henni. Þetta er því allt í senn einföld, sniðug og ódýr hugmynd.

Myndin er fyndin en einnig er hún dramatísk. Handritið er skrifað af kostgæfni og í heildina séð er þetta mjög skondin og hugljúf mynd sem ég mæli með að allir sjái.

Reykjavík – Rotterdam og Óskar Jónasson



Skellti mér á mynd vikunnar, Reykjavík-Rotterdam með Magga á sunnudaginn þar sem að við vorum helmingur mættra nemenda ásamt Sigga Palla.

Þessu bloggi byrjaði ég á um daginn en komst þó ekki lengra en þetta. Ég ætla því að taka upp þráðinn núna og fjalla um myndina og heimsókn leikstjórans í tíma til okkar. Myndinni er leikstýrt af Óskari Jónassyni sem hefur gert stórmyndir eins og Sódóma Reykjavík en einnig mikið af sjónvarpsþáttum á borð við Fóstbræður. Hann skrifaði handritið að myndinni í samstarfi við metsöluhöfundinn Arnald Indriðason sem hefur slegið í gegn með spennusögur sínar á Íslandi sem og erlendis. Samstarf þeirra lítur því ótrúlega vel út á blaði þegar gerð spennumyndar liggur fyrir. Ekki skemmir leikarahópurinn heldur fyrir en í myndinni fara Baltasar Kormákur og Ingvar E. Sigurðsson með aðalhlutverkin og Þröstur Leó, Ólafur Darri og Jörundur Ragnarsson með minni hlutverk ásamt fleirrum. Þarna er s.s. á ferðinni hópur sem kalla mætti landslið Íslenskra leikara dagsins í dag.

Myndin segir frá gamalreyndum íslenskum smyglara að nafni Kristófer sem er hættur allri glæpastarfsemi og reynir að vinna fyrir sér og fjölskkyldu sinni með ýmsum óspennandi vinnum. Honum býðst svo að taka að sér nýtt smyglverkefni og þar sem það gengur illa að láta enda ná saman þá ákveður hann að slá til. Vinur hans Steingrímur sem stóð í smyglinu með honum forðum leggur út fyrir góssinu og Kristófer ræður sig sem aðstoðamann á flutningaskipið Gullfoss. Þegar komið er um borða hittir hann svo gömlu félaga sína og segir þeim frá áformum sínum. Þeim líst ekki vel á málið en fallast þó á að hylma yfir með honum. Kristófer stefnir að því að smygla inn spýra og ætlar að kaupa hann í Rotterdam, þar hefur hann keypt lítinn flutningabíl til þess að geyma varninginn í. Þegar þeir koma til Rotterdam verða þeir að hafa hraðar hendur því skipstjórinn má ekki vita að Kristófer sé farinn frá borði. Myndin segir svo frá því hvernig smyglið fer fram með öllum eðlilegum vandræðum.

Sprengjuatriði í Rotterdam, greinilegt að ekkert var sparað hvað áhættuatrðin varðar

Kristófer er leikinn af Baltasar Kormáki og gerir það með stakri prýði. Karakterinn er fátækur fyrrverandi smyglari sem tók á sig alla sökina í stóru smyglmáli nokkrum árum áður og sat inni í nokkur ár.

Það mætti kannski segja að myndin væri óvenjuleg fyrir íslenska mynd að vera þar sem hér er um að ræða klassíska spennumynd. En ekki einhverja ótrúlega listræna mynd sem fjallar um drykkju og ömurleika lífsins í sveit á Íslandi. Handritið er mjög vel skrifað og heldur söguþráðurinn manni áhugasömum allan tímann. Ekki skemmir svo fyrir að hún endar á óvæntan og fyndinn hátt svo áhorfandinn gengur glottandi út úr bíósalnum.

Að öllum tæknilegum atriðum er vel staðið og kemur hljóð og mynd nánast alltaf vel út. Þó voru sum skot nokkuð skrítin og sem dæmi um það má nefna að krani er notaður við myndatöku í mjög ómerkilegu atriði þegar Kristófer er að keyra inn í innkeyrsluna heima hjá sér. En þar mætti nú bara gefa myndatökumönnum og leikstjóra stig fyrir mikinn metnað í myndatökunni. Eftirminnilegasta atriði myndarinnar er í mínum huga atriðið þegar Gullfoss er að koma til hafnar í Rotterdam og er það sérstaklega skemmtilegt eftir að hafa heyrt Óskar tala um það. Hann sagði okkur að þeir höfðu bara eina tilraun til þess að taka þetta atriði því ekki gátu þeir fengið skipið til að sigla oft til hafnar í Rotterdam. Í atriðinu hafa starfsmenn skipsins skemmt vélina á einhvern hátt til þess að kaupa tíma fyrir Kristófer að fara í land í Rotterdam og kaupa spírann. Skipið lætur því ekki undan stjórn og siglir á ofsahraða til hafnar. Er öll myndataka til fyrirmyndar þar og maður trúir því fullkomlega að þetta sé að gerast þó að Óskar hafi útskýrt að í raun hafi þeir bara hraðað upptökunni mikið til þess að láta þetta líta svona vel út.

Myndin segir á áhugaverðan hátt frá smyglstarfsemi Íslendinga. Öllu stressinu og veseninu sem því fylgir og hversu mikil áhrif það hefur á aðstandendur smyglaranna. Að mínu mati er myndin mjög vel heppnuð og besta íslenska spennumynd sem ég hef séð.

Frá heimsókn Óskars má segja að hann var ótrúlega afslappaður gæji. Sagði okkur frá gerð myndarinnar og var það mjög gaman að fá að sjá hlið leikstjórans á mynd sem maður hafði nýlega séð.

Óskar í stuði

REC



Pétur fór í NEXUS um daginn og sá mynd á einum rekkanum sem hét "REC". Pétur ákvað að taka hana upp þar sem gagnrýnendur voru búnir að lofsyngja hana dável á "coverinu". Orð eins og "The scariest movie you'll ever see" , "A short, terrifying ride" og "HOLY FUUUCKKK!!!!" voru látin fljúga. Aftan á myndinni var lýsing á trailer sem Pétur hafði séð í bíó einni viku áður. Trailer fyrir mynd sem heitir einmitt Quarantine. Pétur varð smá undrandi þar sem sú mynd er á leiðinni í bíó eftir nokkra daga. Pétur spurði einn Úber-1337 NEXUS-nölla hvort hann vissi eitthvað um þessa mynd. Hann sagðist ekki vita neitt nema að þessi mynd væri ársgömul og spænsk.

Einhvern veginn á þennan hátt hófst ævintýri mitt, Péturs og kvikmyndarinnar Rec. Pétur ákvað þó að fjárfesta í myndinni og við horfðum svo á hana í góðum hópi nokkrum dögum síðar. (Vinsamleg athugasemd: það er nauðsynlegt að horfa á þessa mynd í góðum hópi ef þú vilt ekki kúka í þig).

Þessi horfði á REC og kúkaði í sig

Rec er spænsk mynd sem kom út í fyrir sirka ári síðan. Einhverjir frumlegir menn í Bandaríkjunum hafa nú tekið upp á því að endurgera hana alveg eins nema með bandarískum leikurum. Töff þessir kanar, en það segir þó svolítið um gæði hugmyndarinnar á bak við myndina.

Myndin er öll tekin upp í sérstökum stíl. Myndavélin er þáttakandi í atburðarásinni á þann hátt að það er látið líta út fyrir það að að ein persóna myndarinnar taki allt upp. Fólk ætti að kannast við þetta úr The Blair Witch Project og myndinni Cloverfield sem kom nýlega út í Bandaríkjunum. Í þessu tilviki er þetta sett upp þannig að aðalpersóna myndarinnar er ung kona að nafni Ángela Vidal sem sér um þáttarstjórnun spænsks sjónvarpsþáttar. Hún fer að fylgjast með störfum slökkviliðsmanna og fylgir tökumaðurinn henni hvert fótmál. Myndin byrjar rólega þar sem að Ángela tekur viðtöl við nokkra slökkviliðsmenn á næturvakt þar sem þeir bíða eftir að verða kallaðir út. Spennan færist svo í leikinn þegar liðið er kallað út vegna óhljóða sem heyrst hafa frá íbúð í nágrenninu. Ángela og tökumaður hennar stökkva með slökkviliðsmönnunum upp í bílana og keyra af stað. Þegar á staðinn er komið ganga þau upp í íbúðina og þurfa að brjóta upp hurðina því enginn kemur til dyra. Þau ganga inn í myrkvaða íbúðina og mæta að lokum gamalli konu sem lítur mjög illa út. Hún gengur á móti þeim haltrandi en tekur svo kipp, hleypur að fremsta slökkviliðsmanninum og bítur hann í hálsinn. Hún sleppir ekki bitinu og tekur það nokkurn tíma að losa hana af honum. Nú sér fólkið að það er alls ekki allt með feldu í þessari íbúð. Þegar þau koma svo niður úr íbúðinni og ætla að flytja manninum út komast þau að því sér til skelfingar að það er búið að læsa öllum útgönguleiðum hússins og einangra það af lögreglunni. Þau fá engar skýringar og þurfa bara að hanga þarna inni. Brátt fara þó fleirri ógeðfeldir hlutir að gerast og þegar læknir er sendur inn til þeirra kemst fólkið að því að um er að ræða einhverja óþekkta veiru sem gerir það að verkum að fólkið hegðar sér líkt og það sé andsetið og ræðst á allt og alla.

Verið að hakka eina gamla tryllta tussu

Aðalleikkonan Manuela Velasco sem leikur Ángelu stendur sig vel. Karakterinn er ung sjónvarpsgerðarkona sem sér um einhvern ómerkilegan þátt í spænsku sjónvarpi. Hún hagar sér eins og hinn týpíski fjölmiðlamaður og gerir allt til að ná myndum af efninu. Það gerir hana óneitanlega frekar pirrandi karakter en án þess þá yrði myndin jú ekki söm því allt sem við sjáum er það sem myndatökumaðurinn hennar tekur upp.

Ángela ekki alveg að fýla stöðuna sem hún hefur komið sér í

Myndin er stutt eða aðeins um 80 mínútur en það er á engan hátt galli á henni heldur gerir það aðeins að verkum að spennan helst út allan tíman. Myndin er öll mjög dimm og drungaleg og nær tilgangi sínum ótrúlega vel á þann hátt. Ekki skemmir heldur myndatökustíllinn fyrir því hann lætur manni líða mun meira eins og maður sé þáttakandi í atburðarásinni heldur en ef hún væri tekin upp á hefbundinn hátt. Manni bregður ótrúlega oft og hryllir sig þeim mun oftar. Til gamans má geta að Arnór Einarsson neitaði að sitja einn í stól við áhorf hennar því hann var svo hræddur um að einhver myndi koma aftan að honum ☺

Myndin er í heildina algjör háklassa hrollvekju-splatter. Hún byrjar á dularfullan og hrollvekjandi hátt en í lokinn þá hafa karakterarnir misst alla siðferðiskennd og mann langar helst að stökkva sjálfur inn í myndina, taka upp vélsögina og byrja að hakka þetta ógeðslega lið. Þetta er toppmynd sem fær blóðið til þess að frjósa í æðum þínum….

Wednesday, October 29, 2008

Tesis

Jæja í dag er 29. október og því kominn tími til að henda inn fyrsta októberblogginu. Þótt fyrr hefði verið :D



Ég horfði á spænsku myndina Tesis um daginn. Það kom skyndilega upp á að ég horfði á myndina með vinum mínum svo ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í. En myndin var ágætis afþreying og alltaf skemmtilegt þegar eitthvað sem maður hefur engar væntingar til er svo bara nokkuð gott.

Spænski leikstjórinn Alejandro Amenábar leikstýrði myndinni en hanns skrifaði handritið einnig í samvinnu við Mateo Gil. Hún kom út árið 1996 og er að því sem ég best veit fyrsta mynd Amenábars sem vakti heimsathygli. Í seinni tíð hefur Amenábar svo leikstýrt fleirri frægum myndum eins og Abre los ojos sem Hollywood leikstjórinn Cameron Crowe endurgerði svo undir nafninu Vanilla Sky, The Others og Mar Adentro svo nokkur dæmi séu tekin.

Myndin fjallar um Ángelu sem er ung spænsk stúlka. Hún er í kvikmyndaskóla og er að vinna að verkefni um ofbeldismyndir og hvaða áhrif þær hafa á nútímamanninn. Í rannsóknarferlinu biður hún kennara sinn að taka mynd út af bíómyndasafni skólans. Kennarinn gerir þetta og ákveður að horfa á myndina í bíósal skólans. Ekki vill þó betur til en að daginn eftir finnur Ángela kennarann látinn í bíósalnum. Hún tekur tape-ið og fer með það til skólabróður síns Chema sem hún hefur frétt að hafi mikinn áhuga á grófum myndum. Það kemur í ljós að tapeið inniheldur myndband af hettuklæddum mönnum að pinta unga stúlku til dauða, eða svokallað snuff myndband. Chema áttar sig á því að hann þekkir stúlkuna og að hún sé fyrrverandi nemandi skólans sem hvarf á undarlegan hátt árum áður. Þau hefjast handa í rannsókn málsins sjálf í stað þess að leita til lögreglunnar og beinist rannsókn þeirra í upphafi aðallega að skólabróður þeirra að nafni Bosco. Myndin fjallar svo um það hvernig rannsóknin á málinu leiðir Chema og Ángelu lengra og lengra inn í ógeðslegan heim snuffmyndagerðar þar sem að líf þeirra liggur við á tímabili.

Aðalpersóna myndarinnar er Ángela. Ángela er leikin af Önu Torrent sem ég man ekki eftir að hafa séð leika í neinu öðru. Hún er ósköp venjulega stúlka sem flækist inn í þennan ótrúlega heim snuff mynda og verður næstum því fórnarlamb einnar slíkrar myndar í lokinn. Hún hefur engan áhuga á ofbeldismyndum heldur vinnur hún verkefni sitt í þeim tilgangi að benda fólki á þau skaðlegu áhrif sem þær hafa á umheiminn.

Leikarinn Fele Martínez fer með annað stærsta hlutverk myndarinnar sem félagi Ángelu, Chema. Chema er epískt asnalegur náungi með sítt hár og nördagleraug sem virðist ekki eiga vini innan skólans. Hann á risastórt safn af hryllings-, horbjóðs og dúndurklámmyndum og gæti það spilað inn í það af hverju hann á enga vini… Ángela leitar til hans með mynbandið sem olli dauða kennara hennar og flækist hann þannig inn í rannsókn hennar á málinu. Martínez skilar sínu hlutverki vel en þó er ekki um sérstaklega eftirminnilegan leik að ræða..

Eduardo Noriega leikur Bosco í myndinni en hann lék einnig í mynd Amenábars, Abre los ojos. En þar lék hann aðallhlutverk. Hlutverk Boscos í myndinni er kannski ekki það stærsta en persónan er nauðsynleg fyrir alla framvindu hennar. Hann leikur dularfullan karakter sem Ángelu og Chema grunar að standi á bakvið gerð Snuff myndanna.


Sjúklega heitur gaur

Myndina mætti flokka sem drama eða hryllingsmynd. Í heildina séð er hún ágætis afþreying og myndu einhverjir segja að hún væri vel yfir meðallagi. Allavega alveg ágæt. Myndin byrjar sterkt og pælingin er spennandi en þegar myndin fer að líða undir lokinn og twistið er búið að fara í 5 hringi þá er maður orðinn svolítið þreyttur. Ég hugsaði allavega nokkrum sinnum að nú væri nú ágætt að enda þessa mynd og það væri bara komið gott.