Sunday, May 3, 2009

Kvikmyndafræðiárið



Þegar skólaárið hófst vissi ég ekki mikið hvað ég væri að fara út í í Kvikmyndafræðinni. Ég vissi þó að ég myndi gera einhverjar myndir, horfa á einhverjar myndir og svo blogga eitthvað smá. Ég taldi þetta því vera þægilegt og skemmtilegt fag sem tæki ekki mikinn tíma frá öðru námi.

Bloggið var umfangsmeira og tók meiri tíma en ég hafði búist við. Ég hef þó ágætlega gaman af því að skrifa þannig að þegar ég dreif mig af stað í að blogga þá gekk það oftast ágætlega. Vesenið var að fá sig til að byrja í stað þess að falla í hina tímabundið skemmtilegu grifju frestunaráráttunnar. Ég tel þó að það kerfi að skipta stigunum niður á mánuði sé mun skilvirkara og þægilegra, fyrir bæði nemendur og kennara, en að hafa bara einn stóran lokafrest. Veit allavega að ég hefði setið sveittur fyrir framan tölvuna að skrifa búnkana af bloggum síðustu vikurnar og þá man maður bara ekki nógu mikið um myndirnar. S.s. umfangið kom mér á óvart en fyrirkomulagið gott.

Þessi er sáttur með bloggið sitt. Þetta er nú samt ekki ég.

Bóklegu tímarnir voru ágætir. Nokkrir fyrirlestrar voru þreytandi og þá sérstaklega tíminn þegar við fórum 5 sinnum í gegnum sama atriðið úr Notorius, það sveið. Fyrirlestrar nemenda eru nauðsynlegur hluti bóklegu tímanna og þótt að fyrirlestrar mínir hafi ekki verið upp á neinar tíur þá lærði maður mikið af gerð þeirra. Sérstaklega lærði maður þó af fyrirlestrum hinna nemendanna. Mjög gaman var að fá innsýn inn í fjölbreytta kvikmyndagerð fyrr og síðar í gegnum þessa fyrirlestra. Heimsóknir frá leikstjórum voru einnig frábær tilbreyting og gaman er að sjá hversu jákvætt fólk er til þess að mæta. Sérstaklega var heimsókin frá Valdísi Óskarsdóttur skemmtileg en það finnst mér líklega bara því hún var skemmtilegust.
Í vetur finnst mér ég hafa kynnst handritaskrifum og klippingu ágætlega en það sem aðallega hefur breyst er að ég er farinn að horfa með gagnrýnni augum á kvikmyndir. Ég pæli í skotunum, hvar myndavélinni er stillt upp og hversu mikið er klippt í stað þess að sogast bara inn í myndinna án nokkurrar gagnrýni.

mikil gleði og hamingja ríkti í tímunum í vetur eins og sjá má á þessari mynd

Það er einn hlutur sem ég vil gagnrýna og það er kostnaður. Mér finnst allt í lagi að fara í bíó við og við og ætla ekki að gagnrýna það. En að kaupa 3 bækur fyrir þetta fag fannst mér vera of mikið og held ég að flestir séu sammála því. Mér finnst að nemendur eigi að geta valið að nálgast efnið á netinu í stað þess að kaupa heila bók. Á ég þá aðallega við Film Directing Fundamentals sem mjög auðveldlega er hægt að nálgast á netinu. Annars held ég þó að glærurnar sem Siggi gerði dugi nokkurn veginn til þess að fá góða yfirsýn á efnið.

Of dýrt???

Skemmtilegasti hluti námskeiðsins er augljóslega kvikmyndagerðin sjálf. Að vinna í hópi vina að gerð einhvers sem maður hefur gaman að getur nánast ekki klikkað. Þó var það þannig með myndirnar eins og bloggið að oft var erfitt að byrja. Menn eru uppteknir á ólíkum tímum og annað slíkt. En þegar menn hittast til þess að pæla í handriti, fara svo og taka það upp og klippa það og sjá þannig hugmyndina þróast í raunveruleika, þá er gaman.

Bíómyndatímarnir eru fínir. Ég vil þó viðra þá hugmynd að breyta dagsetningu þeirra. Það er bara oftast þannig að í lok vikunnar þá langar mann bara heim til sín að hanga. Mótrökin eru þó þau að með þessu fyrirkomulagi tekur þetta ekki tíma af fólki sem þarf að læra undir próf í miðri viku. Aðalgallinn við bíótímana er þó að mínu mati að horft er á myndirnar á hátíðarsal. Þar eru stólarnir ekki þægilegir og maður nær einhvern veginn ekki að slappa af og njóta myndarinnar. Ég legg til að þessu verði breytt á næsta ári og í staðinn verði horft á myndirnar í Cösu kjallara. Þar getur myndast afslappaðri stemming. Nemendur myndu þá bara taka að sér að setja upp skjávarpann því margir eru í eyðu frá 14-15.

Besta myndin sem ég sá í tímunum í vetur myndi ég segja að væri Citizen Kane. Sú eftirmynnilegasta er þó án efa Man Bites Dog en henni tekst á undraverðan hátt að láta mann hlæja á milli atriða þar sem að manni blöskrar. Í henni eru atriði sem að ég mun ekki gleyma og voru alveg bara rosalega ógeðsleg… Sú leiðinlegasta er líklega Triumph des Willens. Þrátt fyrir það þá myndi ég ekki taka hana út af dagskránni því nauðsynlegt er að þjappa smá Nasistaáróðri inn í kollinn á menntaskólanemum. Að gríni slepptu þá þótti mér hún áhugaverð og passa ágætlega inn þar sem að 6. Bekkur lærir um Seinni Heimsstyrjöldina í Sögu.

Sú eftirminnilegasta

Í heildina séð er ég mjög sáttur með þennan áfanga og myndi hiklaust mæla með honum við alla sem hafa gaman af kvikmyndum. Vel er staðið að öllu, enda ekki við öðru að búast af Sigga Palla ;), og skil ég ekki ennþá hvernig Siggi fékk að kaupa Apple tölvu, góða myndavél og klippiforrit…

Takk fyrir gott ár, Anton Örn Elfarsson

2 comments:

Siggi Palli said...

Takk fyrir veturinn.

Fínar athugasemdir.

3 bækur? Þið voruð nú bara beðin um að kaupa tvær, kvikmyndasögubókin var á myschool. En jú, kannski var þetta soldið dýrt á heildina litið...

Ætla einmitt að skoða það að minnka bloggið aðeins fyrir næsta vetur.

Siggi Palli said...

8 stig.

Bloggeinkunn á vori: 8,6

Lokaloka bloggeinkunn: 9,1