Föstudaginn fyrir frekar löngu heimsótti ég Shorts and docs kvikmyndahátíðina aftur. Þótt það sé mjög langt síðan þá ákvað ég nú samt að setja þetta blog inn. Á dagskrá voru 3 heimildamyndir. Sýning myndanna hófst hálftíma of seint svo að áður en myndirnar byrjuðu hafði ég hlaupið inn í salinn og haldið að ég væri of seinn. Ég skildi auðvitað ekki upp né niður í myndinni sem var til sýningar enda passaði hún engan veginn við lýsingarnar á þeim myndum sem ég hafði ætlað að sjá. Komst þó fljótlega að því að ég var að horfa á endinn á 2 tíma langri mynd og flýtti mér því út. Skemmtileg byrjun á kvöldi.
Fyrst á dagskrá var myndin Hið hreina sigrar allt eða Purity beats everything. Dönsk heimildamynd leikstýrð af Jon Ban Carlsen.
Myndin fjallaði um tvo Dani sem lifðu af útrýmingarbúðirnar í Auschwitz. Var myndin byggð upp sem nokkuð klassísk heimildarmynd með viðtölum við fólkið og þess á milli voru spiluð myndbrot frá útrýmingarbúðunum.
Myndin skilaði sínum tilgangi á ágætan hátt, sem var að sýna fólki stemminguna sem ríkti í búðunum, leifa fólki að kynnast eftirlifendum þessara hörmunga og sjá hversu mikið þessi lífsreynsla breytti lífi þeirra. Myndin hafði kannski önnur áhrif á mig en aðra því ég kom í Auschwitz í fyrra og hef því séð hlutina sem fólkið talaði um.
Í heild er myndin ágæt en óskiljanleg myndskot af þvottasnúru kvikmyndargerðarmannsins og af honum að drekka kaffið sitt inn á milli atriða þóttu mér nú frekar asnaleg og tilgangslaus.
Næst á dagskrá var mynd um mann, mjög feitan mann. Hún bar þó nafnið Fuglarnir eru hljóðir í skóginum eða Die Vögelein schweigen im Walde eða The Birds Are Silent in the Forest.
Myndin byrjaði á skoti af manninum sofandi í rúmi sínu. Myndavélin fylgdi manninum svo fram úr rúminu og inn í eldhús þar sem að hann snæddi morgunmat með móður sinni. Hvorugt segir neitt og virðast þau bæði vera ískyggilega þunglind. Maðurinn fer svo til vinnu á lager þar sem að hann sér um næturvaktina, ekki til að ýta undir lífsgleði hans. Að lokum er hann sýndur við iðkun aðaláhugamáls síns, skotveiða. Hann gengur um skóginn með byssuna sína og skýtur dádýr.
Eftirminnilegasta atriði myndarinnar er að mínum mati þegar maðurinn skoðar myndaalbúm sem hann geymir í veiðikofanum. Myndaalbúmið er fullt af myndum af dauðum dádýrum og virðist þetta vera það eina sem gleður manninn í gegnum myndina. Ekki er um hefðbundna heimildamynd að ræða þar sem að enginn sögumaður segir söguna og engin viðtöl eru tekin. Þema myndarinnar var greinilega firring nútímamannsins enda um einstaklega firrtan einstakling að ræða og markmið kvikmyndagerðarmannsins að vekja nútímafólk upp frá værum blundi firringar…
En án gríns þá skil ég engan veginn hvað vakti fyrir belgíska leikstjóranum Tim De Keersmaecker með gerð myndarinnar enda er um ótrúlega óvenjulega og óáhugaverða mynd að ræða.
Aðalpersónu myndarinnar svipaði mjög til þessa manns
Síðasta myndin fjallaði um heyrnarlaus börn og bar nafnið Þögn í háværum heimi eða Silence in a Noisy World. Áhorfandanum var sýnt inn í líf barna sem lifa og læra saman á heimili fyrir heyrnarlaus börn í Egyptalandi.
Kannski var það einungis vegna áhugaleysis míns en mér fannst myndin aldrei komast á neitt flug. Þetta voru aðeins random skot af börnunum á heimilinu við hinar ýmsu iðjur. Þau borðuðu matinn sinn, þau fóru í talkennslu, þau fóru að sofa. Myndin var þó hugljúf en einfaldlega of hæg og leiðinleg.
Í heildina séð var þessi sýning frekar óspennandi. Fyrsta myndin stóð þó upp úr sem skásta myndin og uppákoman í upphafi ferðarinnar þegar ég settist inn á vitlausa bíómynd ☺
Færslupöntun: Leggið dóm ykkar á fagið!
13 years ago
1 comment:
Fín færsla. 6 stig.
Klárlega versta sýningin sem ég fór á á Shorts & Docs.
Post a Comment