Monday, September 1, 2008

Fjórar íslenskar stuttmyndir

Eftir fyrsta kvikmyndafræðitímann skelltum við okkur nokkrir strákar á fjórar íslenskar stuttmyndir. Þetta voru myndirnar: Magapína, Ketill, Heimildamynd um Svein Kristján Bjarnason eða Holger Cahill og Kjötborg. Myndirnar voru mjög ólíkar og höfðu ótrúlega mismikið skemmtanagildi.

Myndin magapína fjallaði um kúnna Bröndu sem hafði ánetjast plasti. Í lýsingunni í bæklingnum hafði skipuleggjendum hátíðarinnar tekist að gera myndina áhugaverða en annað kom þó á daginn. Hún byrjaði á því að rödd manns heyrðist tala í nokkurn tíma um mengun í heiminum og hvaða áhrif það hefði á hann. Síðan tók myndin sjálf við og verð ég að segja að hún olli mér miklu vonbrigðum. Myndin hefði í rauninni getað verið kennslumyndband í dýralækningum því að aðeins var sýnd léleg upptaka af því þegar dýralæknir skar gat í beljuna, tróð hendi sinni inn í hana og togaði út endalaust plastdrasl sem beljan hafði étið. Svo var saumað fyrir og ahh bú. Frekar aum mynd að mínu mati. Ekki mikið virtist vera lagt í neinn hluta hennar og söguþráður var enginn.

Næsta mynd á dagskrá var myndin Ketill. Myndin fjallaði um þennan áhugaverða mann Ketil sem er eins og hann orðaði það sjálfur “bara grallari úr Reykjavíkinni”. Fylgst var með honum við hinar ýmsu iðjur, s.s. að tala við fugla og að sýna krökkum misheppnuð töfrabrögð. Maðurinn er þó ótrúlega hlýr og góður í gegnum öll skringilegheitin. Myndina mætti flokka sem heimildamynd þar sem að skiptast á viðtöl við Ketil sjálfan og myndbrot af honum. Að mínu mati var myndin of löng og hélt mér ekki spenntum allan tímann en ef á heildina er litið er hún skemmtileg hugmynd sem ágætlega var unnið úr.

Þriðja myndin á dagskrá var heimildamynd um Svein Kristján Bjarnarson eða Holger Cahill, Vesturíslending sem fluttist til Ameríku aðeins tveggja ára gamall. Skiljanlega er ekki til myndefni í heila kvikmynd um Svein svo að myndin er byggð upp á þann hátt að sögumaður segir sögu hans, viðtölum við fjölskyldu hans og vini er skotið inn í og ljósmyndir látnar rúlla ásamt nokkrum kvikmyndabrotum. Þetta form getur hentað ágætlega í svona myndum og kom í raun ágætlega út. Myndin var þó að mínu mati allt of löng og lá við að ég sofnaði á köflum. En henni til varnar þá er myndin ennþá í vinnslu og vona ég að framleiðendurnir klippi hana allrækilega til áður en að þeir sýna hana á öðrum vettvangi.

Síðasta mynd kvöldsins bar nafnið Kjötborg eftir samnefndri verslun í Reykjavík. Myndin fjallar um daglegt líf í versluninni en Kjötborg er ein af fáum hverfisverslunum sem lifa enn þann dag í dag. Kjörorð verslunarinnar eru: “Kjötborg, hér fæst allt” og á það ágætlega við. Þarna fást ótrúlegustu hlutir en einnig eru kúnnarnir á alla vegu og fáum við að kynnast nokkrum þeirra betur. Sérstök stemming ríkir á svæðinu þar sem að persónuleg tengsl myndast á milli búðareigendanna og viðskiptavinanna. Myndinni tekst mjög vel að fanga þá stemmingu sem ríkir í kringum þessa litlu búð og er sérstaklega skemmtilegt að sjá frá sambandi verslunareigendanna við nokkra af fastakúnnum sínum sem þeir afhenda mat inn um gluggann og þekkja í raun ótrúlega vel.
Þetta er eina af þessum feelgoodmyndum og hún fékk mig, Garðbæinginn, til þess að hugsa hvort það væri nú ekki gott að búa í Reykjavíkinni. Finnst að kvikmyndagerðamennirnir (eða konurnar) eigi hrós skilið fyrir skemmtilega hugmynd sem þær framfylgdu vel og á skemmtilegan hátt.

1 comment:

Siggi Palli said...

Fín færsla, en mætti skella inn 1-2 myndum til þess að lífga upp á hana. 5 stig.