Tuesday, September 30, 2008

Megaslæmt..



Ég horfði á myndina Superbad um daginn. Ég sá hana þegar hún kom út og fannst hún fyndin. Nú gerðist það eiginlega óvart að ég horfði á hana, fjölskyldan var að horfa á hana og ég byrjaði og en gat svo ekki hætt.

Í grunninn er þetta alls ekki nýtt concept. Aðalpersónur myndarinnar eru menntaskólastrákar á sínu síðasta ári í menntaskóla. Strákar sem ekki tilheyra svala genginu í skólanum en reyna allt til þess að fá að ríða áður en þeir komast í Háskóla, því eins og þeir halda fram þá er nauðsynlegt að vera búinn að öðlast reynslu í rúmfræðunum áður en þú kemur í háskóla þar sem tekið verður á því.

Söguþráðurinn er ótrúlega brenglaður. Þetta hefst allt á því að aðalkarakterunum Seth, Evan og Fogell er boðið í party, eitthvað sem gerist alls ekki á hverjum degi. En þar sem Fogell hyggst fá sér fölsuð skylríki seinna um daginn þá tekur Seth að sér að redda áfengi fyrir allt partyið. Myndin fjallar svo á stórkostlegan hátt um alla þá fáránlegu hluti sem henta þá áður en þeir komast að lokum í partyið.

Seth í góðu djelli

Seth, Evan, og Fogell spila mjög jafnstór hlutverk í myndinni og því ekki hægt að kalla einhvern einn aðalpersónu en ég ætla þó að byrja á að fjalla um Seth sem leikinn er af Jonah Hill. Jonah er ungur leikari sem greinilega er á uppleið og hefur hann sést í misstórum hlutverkum í myndum eins og Click, Knocked up og Forgetting Sarah Marshall. Seth er sá heimski í þríeikinu, hann er sá eini sem ekki komst inn í Dartmouth og eyðir stórum hluta síns frítíma í að finna út hvaða klámsíðu hann ætlar að vera áskrifandi að næsta árið. Hann er einnig feiti gæjinn í hópnum og á því erfitt með að næla sér í stúlku en er þó með stærstu yfirlýsingarnar um þau efni.


Evan er án efa skynsami gæjinn í hópnum. Leikinn af góðvini mínum Michael Cera sem einnig lék í Juno eins og kemur fram í bloggi mínu um hana og Arrested Development. Skemmtilegt er að geta þess að karakterinn sem hann leikur hér er mjög líkur bæði karakternum hans í Juno og Arrested og mér finnst hann í rauninni alltaf vera að leika sama strákinn. Hann heldur Seth og Fogell niðri á jörðinni og er límið í þessum vinskap þeirra.


Meistari McLovin í trylltum dansi

Fogell er þriðji maðurinn í þríeykinu. Leikinn af Christopher Mintz-Plasse (haha fáránlegt nafn ☺) sem ég man ekki eftir að hafa séð í öðru kvikmyndaverkefni. Karakter Fogels er þessi vitlausi en samt klári gaur. Gaurinn sem er klár á bókina en ótrúlega mistækur á allt utan hennar og þar að auki Mega-Lúði. Sem dæmi um þetta þá má nefna að þegar hann ákveður að fá sér fölsuð skilríki þá velur hann sér ekki eitthvað eðlilegt nafn eins og John heldur nafnið McLovin og ekkert eftirnafn! Atriðið þegar hann sýnir vinum sínum nýju skilríkin sín, ótrúlega stoltur, er mjög eftirminnilegt og er þetta McLovin grín strax orðin alger klassík. Fogell er gæjinn sem tekst að klúðra öllu en er þó heppinn í myndinni.

Skemmtilegustu karakterar myndarinn eru þó lögregluþjónarnir Officer Slater-Bill Hader og Officer Michaels leiknir af Bill Haden og Seth Rogen. Leikurunum sem hafa leikið í knocked up, sarah marshall, Tropic Thunder, Pineapple Express og mörgum öðrum stærstu grínmyndum síðustu ára. Í Superbad leika þeir þetta löggupar sem er orðið frekar þreytt á vinnunni sinni. Þegar þeir rekast svo á Fogell í dulargervi McLovins að gera tilraun til að kaupa áfengi ákveða þeir að taka hann undir sinn verndarvæng. Saman gera þeir fáránlegustu hluti þar sem að þeir sýna enga ábyrgð á neinn hátt sem löggæslumenn. Ómissandi par sem þeir félagar leika á ógleymanlegan hátt.



Í mínum huga eru höfundar Superbad komnir í sérflokk í grínheimi dagsins í dag. Þeir hafa skrifað eða komið á annan hátt að öllum bestu grínmyndum síðustu ára og virðast ekkert ætla að hætta að dæla út efni. Að mínu mati er Superbad þó besta mynd þeirra síðustu árin. Því þó svo hún byggi á ótrúlega klassískri hugmynd þá er einhver auka neysti sem þeir ná að glæða myndinni sem gerir hana að frábærri grínmynd.

1 comment:

Siggi Palli said...

Flott færsla um bráðskemmtilega mynd. 7 stig.