Tuesday, September 30, 2008

The French Connection



Ætla að skrifa um myndina The French Connection sem kom út árið 1971 og hlaut þá 5 óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta mynd þess árs.

Myndin fjallar um rannsóknarlögreglumennina Jimmy Doyle sem leikinn er af Gene Hackman og Buddy Russo sem leikinn er af Roy Scheider. Þeir eru samstarfsmenn í löggunni og starfa í fíkniefnadeildinni.
Eitt kvöld þegar þeir hanga á aðal krimmabarnum í bænum taka þeir eftir óvenjulega mikilli uppivöðslusemi fransks manns sem þeir kannast þó ekki við. Þeir fara að rannsaka mannin nánar og komast að þvi að hann heitir Alain Charnier og er franskur innflytjandi. Yfirmenn lögreglunnar hafa ekki mikla trúa á því að eyða tíma í að eltast við þennan mann enda hefur hann hreina sakaskrá. Á endanum afhjúpa Doyle og Russo þó að Alain Charnier stendur í stóru heróínsmygli í samstarfi við Frakka.

Myndin fjallar svo um það hvernig löggurnar reyna að “busta” frakkana við smyglstörfin. Um miðja mynd hefst ótrúlegur eltingaleikur þar sem að Jimmy Doyle eltir einn frakkanna. Frakkinn hoppar inn í lest en Jimmy keyrir bíl. Þetta atriði tekur hátt í 10 mínútúr og var talið alveg ótrúlegt hérna um árið. Jimmy keyrir á móti umferð og á allt sem á vegi hans verður, með miklum tilþrifum.



Það sem stendur uppúr í myndinni er leikur Gene Hackmans sem lítur út eins og unglamb miðað við það sem við flest þekkjum af honum. Hann var þó 41 árs þegar hann lék í myndinni. Hackman leikur sjálfsöruggan og hrokafullan rannsóknarlögreglumann sem dettur í það á virkum dögum og reynir við allt sem hreyfist. En þegar hann kemst í verkefni sem hann hefur metnað fyrir og trú á setur hann allt í botn og sinnir starfi sínu sem löggi mjög vel. Einkennismerki hans er hattur sem hann gengur með hvert sem hann fer.

Aðalandstæðingur hans, frakkinn Alain Charnier er skemmtilega mikil Andstæða Jimmy Doyles (persónu Hackmans). Hann er virðulegur maður sem kemur vel fyrir og er temmilega jarðbundinn. En hann rekur lítinn veitingastað sem yfirbreiðustarfsemi yfir mikla glæpastarfsemi sína og í rauninni er hann einn stærsti heróíninnflytjandi Norður-Ameríku.

Frakkinn sem selur Charnier heróínið er einnig mjög skemmtileg týpa. Eldri maður sem greinilega býr yfir mikilli reynslu á sviði smigls og annarar ólöglegrar starfsemi. Eftirminnilegt atriði er þegar Jimmy Doyle er að elta hann og hann hefur greinlega áttað sig á því. Frakkinn fer inn á lestarstöð og inn í lest og Jimmy á eftir honum. En áður en lestin fer af stað hoppar frakkinn út og Jimmy á eftir honum. Hann endurtekur þetta nokkrum sinnum en á endanum tekur Jimmy ekki eftir því að hann hafi farið aftur inn í lestina og Frakkinn skilur hann því eftir brjálaðan á brautarpallinum og vinkar honum kaldhæðnislega.




Tónlistin og tæknibrellurnar í myndinni er það sem einna helst kemur upp um aldur hennar. Tónlistin er í skemmtilega gömlum stíl sem svipar nokkuð til hins fræga Jaws stefs og svo með nokkrum háum tónum inn á milli. En tæknibrellurnar einkennast af gerfilegu gerfiblóði og hálflúðalegum barsmíðum.

Sú staðreynd að myndin er byggð á sönnum atburðum gerir hana skemmtilegri að mínu mati og þá sérstaklega sú staðreynd að aðalkrimmi myndarinnar, Frakkinn sem flutti inn dópið, slapp af vetvangi og hefur aldrei fundist síðan.

Persónulega olli myndin mér þó nokkrum vonbrigðum. En ég hafði líka nokkrar væntingar þar sem hún var valin besta mynd ársins þetta árið. Mér fannst sagan ekki vera nógu heilsteipt til þess að halda manni á tánnum allan tímann og margir daufir kaflar koma inn á milli aksjón atriða. Ég tek það þó fram að ég horfði á myndina ótextaða og verður að segjast að Gene Hackman er ekkert að sækjast eftir skýrmælskuverðlaunum fyrir leik sinn í myndinni og gæti það hafa haft áhrif á skoðun mína á myndinni.

1 comment:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 7 stig.

"...og var talið alveg ótrúlegt..." Fannst þér þá ekkert varið í það?