Thursday, January 22, 2009

Sólskinsdrengur



Eftir að ég ófór á Sólskinsdrenginn með kvikmyndafræðinni þá ákvað ég að að það væri mál að skella sér á gamla daginn eftir. Ég og Magnús Örn smöluðum því með okkur fríðu föruneyti og marseruðum í Smáralindina úr Garðabænum. Í rauninni vissi ég ekkert hvað ég var að fara út í og innan með mér ríkti því blanda af hvíða og óöryggi. En ég harkaði af mér og settist inn í salinn.

Brátt kom í ljós að myndin fjallaði um íslenskan einhverfan strák, Kela að nafni. Það sem meira var og gerði myndina einlægari og áhrifameiri fyrir mig var að ég kannaðist við fjölskyldu Kela.

Myndin sesgir frá Margréti, móður Kela og baráttu hennar fyrir einhverfan son sinn. Margrét gafst ekki upp ráðalaus þegar drengurinn hennar var greindur með hæsta stig einhverfu og henni sagt að hann myndi líklegast aldrei geta haft samskipti við fólk. Hún fór að rannsaka málin og þegar hún hafði aflað sér nokkurra jákvæðra upplýsinga fékk hún kvikmyndagerðarmanninn Friðrik Þór Friðriksson til liðs við sig. Hún hafði fyrst í hyggju að gera almenna fræðslumynd um einhverfu og ætlaði ekki að vera viðriðin hana beint. En þessi hugmynd þótti Friðriki ekki nógu áhugaverð. Hann vildi gera mynd um Kela og Margréti þar sem að þau væru miðpunkturinn.

Keli kepps hress

Myndin fylgir Margréti svo á milli landa þar sem að hún talar við fræga lækna, fólk sem hefur tileinkað lífi sínu einhverfum börnum sínum og einhverfu fólki sem náð hefur ótrúlegum árangri. Hún finnur að lokum indverska konu sem hefur náð ótrúlegum árangri með einhverfan son sinn sem eitt sinn var mállaus en er nú farinn að tala við hana. Þetta gefur Margréti mikla von og í lok myndarinnar fer hún með Kela til indversku konunnar sem hefst handa við að vinna með honum. Hún nær sambandi við hann sem gleður fjölskylduna jafnt sem áhorfandann.


Indverska konan og sonur hennar

Heimsókn Friðriks Þórs var ágætis skemmtun. Hann gaf okkur betri hugmynd um það hvernig var að vinna svona heimildamynd en talaði þó mun meira um einhverfu en um kvikmyndagerð. Hann sagði frá því að draumur hans með Sólskinsdreng voru að gera hana að mun stærri mynd. Hann vildi fara til Afríku og tala við töfralækna þar því hann taldi að þeir vissu miklu meira um einhverfu en þeir læknar sem “kölluðu sig” menntaða í þessu á Vesturlöndunum, eins og hann orðaði það. En það var aðeins fjarlægur draumur. Einnig upplýsti hann að þau hefðu tekið upp u.þ.b. 400 tíma af efni fyrir myndina sem verður að teljast gríðarlegt magn. Það hafi því verið erfitt að klippa myndina og mörg atriði sem hann taldi nánast nauðsynleg þurftu að víkja.

Að mínu mati er Sólskinsdrengur frábær mynd. Hún kenndi mér margt um einhverfu sem ég hafði alls ekki áttað mig á. Ég hafði búið mér til ímynd einhverfs fólks í huganum en myndin gjörbreytti þeirri ímynd. Þess vegna er þessi mynd frábært framlag til upplýsingar samfélagssins. Hún kennir manni að gefast ekki upp þótt á móti blási og allar líkur séu á móti manni.

1 comment:

Siggi Palli said...

Hélt ég hefði verið búinn að kommenta. Þú fékkst 6 stig.